141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þm. Þuríði Backman kærlega fyrir samstarfið. Það hefur verið einkar ánægjulegt að starfa með henni í þeim nefndum sem ég hef setið í með henni og vinnubrögð hennar á þingi hafa verið til fyrirmyndar.

Ég kem hins vegar hér upp og óska eftir að fá að ræða við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, formann allsherjar- og menntamálanefndar, í framhaldi af óundirbúnum fyrirspurnum sem ég fór í í gær við hæstv. innanríkisráðherra Ögmund Jónasson. Þar ræddi ég við hann um leiðbeinandi reglur um innheimtukostnað lögmanna sem ráðuneytið hefur enn þá ekki sett þó að veitt hafi verið lagaheimild til þess um mitt ár 2010, í lögum um lögmenn, nr. 77/1988. Ráðherra viðurkenndi að þessi seinagangur væri svo sannarlega ekki til fyrirmyndar — ólíkt störfum flokkssystur hans hér — og hann ætlaði að kanna málið. Það sem ég mundi vilja taka upp við hv. þingmann snýr að 24. gr. a þessara sömu laga. Það er ákvæði sem ekki er nauðsynlegt að setja neinar leiðbeinandi reglur um heldur er það skýrt bannákvæði við því að taka innheimtulaun af gjaldfelldum kröfum við löginnheimtu.

Í fyrirspurn til ráðherra sem flokkssystir hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, lagði fram, vildi hún einmitt fá svör við því hvort því hefði verið fylgt eftir að tryggja að ekki væri verið að taka innheimtulaun af gjaldfelldum kröfum heldur aðeins þeim kröfum sem væru í vanskilum þegar kæmi að því að krafa væri gjaldfelld.

Þetta ferli er í höndum hins opinbera, hjá sýslumönnum. Í þeim svörum sem hv. þingmaður fékk virtist framkvæmdarvaldið ekki hafa (Forseti hringir.) fylgt eftir skýrum lagaákvæðum um að gæta þannig hagsmuna skuldara á nauðungaruppboðum frá því að Alþingi bannaði þetta. (Forseti hringir.) Er þetta eitthvað sem nefndin mundi vilja taka upp?