141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti Við erum komin þrjá daga fram yfir áætluð starfslok þingsins og því miður bólar ekkert enn á skynsamlegri forgangsröðun stjórnarflokkanna. Það verður að segjast eins og er að undanfarnar tvær vikur hafa verið illa notaðar til þess samráðs sem nauðsynlegt er til að ná saman um stórmál sem hugsanlega má ná saman um. Á dagskránni í dag eru 40 mál sem eins og rætt var í gær endurspegla ekki endilega öll þau áherslumál sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa velt fyrir sér að koma í gegnum þingið. Engu að síður eru hér afar fá mál sem snerta skuldamál heimila eða atvinnuuppbyggingu.

Eitt er það mál sem ríkisstjórnarflokkarnir gerðu samninga um við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin en það var um aðgerðir í vinnumarkaðsmálum og koma langtímaatvinnulausum í vinnu á nýjan leik. Nú hafa verið uppi ásakanir frá hendi Sambands íslenskra sveitarfélaga síðustu daga þess efnis að ríkisstjórnin hafi svikið sinn part. Ég sá í fréttum í morgun að aðstoðarmaður velferðarráðherra, undir hvern þetta mál heyrir, segir að ráðherrann hafi skilað sínu og nú sé það löggjafarþingsins að klára málið. Ég verð að segja eins og er að hafi það verið forgangsmál ríkisstjórnarinnar að koma þessu máli í heila höfn hefði frumvarp um það átt að vera komið fram fyrir lifandis löngu í þinginu. Það er ódýrt að skella skuldinni á löggjafarþingið þegar ekkert frumvarp er enn komið frá ráðuneytinu í þingið. Ég vil hvetja hv. velferðarnefnd að taka þetta mál upp ef við ætlum að vera hér í einhverja daga í viðbót og ganga í að koma með slíkt frumvarp (Forseti hringir.) svo hægt sé að koma þessu mikilvæga máli, vinnumarkaðsúrræði fyrir langtímaatvinnulausa, af stað, en þau úrræði held ég að skipti mjög miklu máli.