141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, þingflokksformann Framsóknarflokksins, um auðlindir og auðlindir í þjóðareign.

Ég og hv. þingmaður sátum saman í starfshópi sem falið var að endurskoða lög um stjórn fiskveiða á sínum tíma. Ein af meginniðurstöðum þess starfshóps er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Starfshópurinn, að undanskildum fulltrúum LÍÚ, telur nauðsynlegt að skýrt ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, þar með talið auðlindum sjávar, komi í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Hópurinn leggur til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sendi erindi þar að lútandi til nýskipaðrar stjórnlaganefndar sem er að undirbúa þjóðfund og stjórnlagaþing.“

Það var meginniðurstaða hópsins, samdóma álit allra nema fulltrúa íslenskra útvegsmanna, að þannig bæri þetta að vera og þar með í leiðinni skrifaði hv. þingmaður Gunnar Bragi Sveinsson undir þetta álit

Í sérstakri bókun hv. þingmanns í nefndinni segir, með leyfi forseta:

„Þá gerir samningaleiðin jafnframt ráð fyrir að með skýrari hætti sé kveðið á um að auðlindin er sameign þjóðarinnar og tel ég rétt að í stjórnarskrá eigi að setja skýrt ákvæði um þjóðareign.“

Það er hafið yfir allan vafa hver skoðun hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, er á þessu máli — eða var, skulum við segja. Til að undirstrika það enn frekar er á heimasíðu Framsóknarflokksins fjallað um stjórnarskrármálið og auðlindamálið og þar segir, með leyfi forseta:

„Skynsamlegast er fulltrúar allra flokka á Alþingi nýti þann litla tíma sem eftir er til að ná samstöðu um nokkrar mikilvægar greinar […] Þingflokkur framsóknarmanna leggur áherslu á ákvæði um náttúruauðlindir […].“

Undir þetta skrifar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks framsóknarmanna. Ég vil beina þessari spurningu til hans: Hvað veldur þeim sinnaskiptum sem má greina í umræðum hér á þingi um auðlindamál af hálfu hv. þm. Framsóknarflokksins? (Forseti hringir.) Hvað þarf til að hans mati að breyta í þeim tillögum sem nú liggja fyrir um auðlindir og þjóðareign til að hann geti samþykkt þær og Framsóknarflokkurinn gæti stutt. Hverju þarf að breyta? (Forseti hringir.) Hvað þarf til að þingmaðurinn standi við þau orð og þær skoðanir sem hann hefur haft á þessum málum hingað til?