141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu upprifjun. Það er allt satt og rétt að sjálfsögðu sem þingmaðurinn segir eins og venjulega. Þar af leiðandi er ekki neitt við það að athuga sem hv. þingmaður segir hér.

Samningaleiðin sem við stungum upp á að fara í svokallaðri sáttanefnd var að sjálfsögðu leið til þess að skera einmitt úr um allan vafa um það hverjir ættu og hverjir hefðu afnot af auðlindinni. Við töldum sem sagt að samningaleiðin væri best til þess. Þar mundu menn semja um annars vegar eignarréttinn og hins vegar um afnotaréttinn. Það hefur ekkert breyst varðandi það, nákvæmlega ekkert.

Hv. þingmaður spyr um sinnaskipti. Ég kannast ekki við þessi sinnaskipti hjá nokkrum einasta framsóknarmanni sem hér hefur talað um að náttúruauðlindir eigi að vera í þjóðareign. Við höfum talað um það og lögðum reyndar fram 21. janúar síðastliðinn að farið yrði sérstaklega yfir það ákvæði til að reyna að ná því inn í stjórnarskrá fyrir þinglok. En því miður var ekki tekið í þá útréttu sáttarhönd af stjórnarflokkunum. Það var enginn áhugi á að ræða það þá. Við settum því fram, reyndar ekki á þingi heldur í fjölmiðlum, og sendum út tilkynningu um nýtt auðlindaákvæði. Og hvað gerðist? Um leið og það var birt fóru menn af hjörunum í staðinn fyrir að setjast niður og ræða hvort breyta þyrfti því á einhvern hátt. Ég hlýt að spyrja á móti hv. stjórnarþingmenn: Hvað var að því? Af hverju settust menn ekki niður og ræddu það mál?

Mér sýnist því miður að sú tillaga, ef hv. þingmaður er að spyrja út í hana, sem nú liggur fyrir þinginu sé frekar óskýr samsuða úr mörgum áttum sem þarf að fara miklu betur yfir, þarf að athuga hvort gangi upp frá öllum hliðum. Það gengur ekki að breyta einu orði þegar menn eru með ákvæði t.d. um náttúruauðlindir því að eitt orð, breyting á einu orði, getur breytt allri greininni og allri hugsuninni. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi held ég að væru mistök að leggja þetta fram með þessum hætti. Fyrir utan það, (Forseti hringir.) og ég verð, virðulegi forseti, að koma því á framfæri, að sá texti sem lagður var fram í gærmorgun af nokkrum hv. þingmönnum (Forseti hringir.) er ekki í samræmi við þann texta sem formaður Samfylkingar sendi formönnum stjórnarflokkanna til að hugsa um um helgina.