141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar að vekja athygli á við þetta tækifæri. Í fyrsta lagi kemur það í ljós í nýrri skoðanakönnun að 60% þeirra sem taka afstöðu telja að Ísland eigi að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið svo þjóðin fái að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún vilji ganga til liðs við sambandið. Það er ánægjulegt og ég vona að sú ríkisstjórn sem verður mynduð hér að loknum næstu kosningum taki mið af þeirri ósk þjóðarinnar og haldi áfram viðræðunum svo þjóðin fái að taka upplýsta ákvörðun.

Hins vegar vil ég einnig vekja athygli á stöðu stjórnarskrármálsins. Manni er eiginlega orða vant eftir þrumuræðu hv. þm. Þórs Saaris hér rétt áðan. Það er alveg ótrúlegt að þeir sem tala hæst um að þeir vilji breyta stjórnmálamenningunni séu svo manna orðljótastir þegar þeir koma hingað í þetta púlt. En nóg um það.

Það er mín skoðun að breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur hafi ekki gert neitt annað en að spilla því ferli sem var verið að reyna að ná sátt um; að tryggja áframhaldandi vinnu við stjórnarskrá Íslands. (Gripið fram í.) Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir getur ekki ætlast til þess að þingheimur (Gripið fram í.) samþykki stjórnarskrá Íslands sem breytingartillögu án greinargerðar, án allra lögskýringa.

(Forseti (ÁRJ): Gefið ræðumanni hljóð.)

Það er í raun og veru óvirðing við stjórnarskrá Íslands að fara fram með þeim hætti. [Frammíköll í þingsal.]

Ég vil segja, virðulegi forseti, að nú hefur skapast grundvöllur fyrir (Forseti hringir.) því að stjórnmálaflokkar nái samtali um hvernig þessu máli verður háttað áfram. Ég skora á þá ungu og efnilegu stjórnmálaforingja sem nú leiða þá flokka sem starfa hér inni að þeir vinni nú saman að því að finna flöt á því að tryggja áframhald þessa máls svo vinnu verði haldið áfram við endurskoðun stjórnarskrár Íslands. Nú hefur verið rétt út sáttarhönd í þessu ferli og vonandi geta formenn stjórnarflokkanna allra komið sér saman um niðurstöðu svo hægt sé að halda málinu áfram. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð og hafa frið í salnum.)