141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi örstutt koma hingað upp til að vekja athygli á sama máli og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson gerði áðan. Það hefur verið upplýst að unnið hefur verið að breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga í samstarfi velferðarráðuneytis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa kallað mjög eftir því að lagabreytingin kæmi til framkvæmda. Okkur skilst á fréttum að það sé töluvert síðan að málið var tilbúið af hálfu ráðuneytisins og sveitarfélaganna en svo ber við að það birtist ekki hér í þinginu. Er þó ekki skortur á nýjum málum sem koma hingað inn í þingið, hæstv. forseti. Þau eru enn að berast, liggur mér við að segja.

Ég vildi vekja athygli á þessu vegna þess að þarna er um brýnt hagsmunamál fyrir sveitarfélögin en það er líka brýnt hagsmunamál fyrir marga einstaklinga að lausn finnist í þessum efnum. Ég velti fyrir mér hvort ekki er hægt að grafast fyrir um skýringar á því af hverju þetta mál kemur ekki inn í þingið. Er það rétt sem sagt er að það sitji fast í þingflokkum, annaðhvort Samfylkingar eða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Ef svo er, hver er skýringin á því?