141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:07]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því sérstaklega að þetta mál sé hér til umræðu og á dagskrá. Það vekur furðu mína að heyra þá síbylju fjölmiðla síðasta sólarhringinn og jafnvel ummæli forustumanna á Alþingi að á þinginu sé algjört uppnám og óvissa vegna þess að menn viti ekki hvert þeir eru að fara. Hér sé allt óljóst um framhald þingstarfa og má skilja svo á fréttum að umræðan sé í einhverju dellumakaríi og vitleysu.

Ég verð að segja fyrir mína parta að umræðan sem fór fram í gær frá klukkan tvö og fram til miðnættis var málefnaleg og góð. Ég sat hér lungann úr deginum og fram undir miðnætti, fylgdist vel með umræðunni og ég var mjög ánægður að heyra þau sjónarmið og þær áherslur sem komu fram vegna þess að menn voru nánast í fyrsta skipti í umfjöllun um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að ræða efnislega ákveðna þætti sem eru hér sérstaklega til umræðu. Vissulega eru vonbrigði og ósætti með hvaða hlutir eru uppi á borði og hvers vegna við erum ekki að ræða málið í heild. Ég hef ekkert farið dult með þá skoðun mína að ég hefði viljað hafa allt undir í þessari umræðu. Reyndar er það að vissu leyti þannig með þeirri einstöku breytingartillögu sem Margrét Tryggvadóttir hefur flutt, en við erum hér að ræða málið út frá þeim forsendum sem koma fram í tillögu formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar um málsmeðferðina inn í næsta kjörtímabil, þá tillögu um breytingarákvæði sem liggur fyrir og síðast en ekki síst þá breytingartillögu sem meðal annars formenn stjórnarflokkanna hafa lagt fram um auðlindaákvæðið sem er tekið óbreytt upp úr þeim tillögum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt fram.

Í raun og veru er málið allt undir en ég hefði auðvitað kosið að við værum í framhaldsumræðu þeirrar umræðu sem hófst þann 3. mars síðastliðinn þegar framhaldsnefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kom inn í þingsalinn og við fengum afar takmarkaðan tíma til að rétt ýta því úr vör. Það hefði verið meiri sómi að því að við værum með það mál hér undir og gætum rætt það í heild sinni. Það hefur skort á það allan þann tíma sem málið hefur verið til meðferðar Alþingis að í þingsalnum hafi farið fram sú efnislega umræða sem á auðvitað að eiga sér stað.

Það er margt athyglisvert sem hefur komið fram á þeim stutta tíma sem umræðan hefur þó staðið síðan í gær. Sjónarmið stjórnarandstöðuflokkanna eru langt í frá að vera samhljóða um þær tillögur sem liggja fyrir og eru einungis tvær um breytingarákvæði annars vegar og auðlindaákvæði hins vegar. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að verið sé að nálgast sjónarmið hans með þeim tillögum sem hafa verið kynntar um breytingarákvæðið. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa hins vegar talað í aðrar áttir og lýst þeirri skoðun að þeir séu algjörlega andvígir því að farið sé fram með nokkurs konar breytingu á því ákvæði sem losar undan þeim þyngslum að það þurfi tvö Alþingi til að fara fram með breytingar á stjórnarskrá. Þarna er skýr munur á milli sem kom fram í umræðunni í gær. Auðvitað hafa menn vitað af þeim ágreiningi og skoðanamun en hann liggur fyrir með skýrum hætti af því að umræðan hefur þó fengið að fara fram í stuttan tíma.

Á sama máta hafa komið fram gjörólík sjónarmið stjórnarandstöðuflokkanna um auðlindaákvæðið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst nánast algjöru frati á það og þá tillögu sem liggur hér fyrir og formenn þingflokka stjórnarflokkanna hafa lagt fram og tekið upp úr þeim tillögum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur kynnt. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar lýst sig reiðubúinn til umræðu um auðlindaákvæðið og lagt fram ákveðnar tillögur í þá veru sem í raun og veru er endurtekin tillaga sem svokölluð auðlindanefnd lagði fram um aldamótin árið 2000. Ég gat hins vegar ekki skynjað annað í umræðunni í gær en að ákveðnir þingmenn Framsóknarflokksins lýstu því yfir að þeir litu svo á að sú tillaga og hugmynd sem þeir hefðu lagt inn í umræðuna fyrir nokkrum vikum væri innlegg til frekari umræðna og þeir væru opnir fyrir því að skoða þau mál nánar. Það er þó alla vega vilji til að fylgja því máli eftir og hugsanlega einhver möguleiki á að horfa til samstöðu í þeim efnum.

Í mínum huga er þó ákveðinn og skýr grundvallarmunur, ég held að menn séu sammála um það, á þeirri tillögu sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt inn í umræðuna og er orðin þrettán ára gömul og þeirri útfærslu sem hefur verið unnin af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í ítarlegri og vandaðri vinnu og liggur fyrir í fullmótaðri og skýrri tillögu. Hún var reyndar svo skýr og ítarleg að ákveðnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lýstu því hérna yfir að hún væri allt of löng og allt of ítarleg, það væri helsti gallinn á tillögunni. Það var auðvitað mjög sérkennilegt sjónarmið. Þetta ákvæði er lykilatriði sem þjóðin hefur kallað eftir og skýr vilji er til þess að það komi inn í stjórnarskrá núna. Stjórnarflokkarnir, þrátt fyrir þá þröngu stöðu sem menn hafa verið í um stjórnarskrármálið, hafa þó verið samtaka um það og lýst yfir skýrum vilja til að menn fari ekki út úr þessum þingsal fyrir lok kjörtímabilsins án þess að ljúka því máli í það minnsta. Þjóðin hefur sagt skýrt, síðast í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn, að þetta ákvæði eigi heima í stjórnarskrá og það þurfi að koma þar inn hið fyrsta. Við höfum skyldur gagnvart þjóðinni í þeim efnum og reyndar miklu fleirum hvað þetta mál snertir, þ.e. umfjöllun og afgreiðslu á nýrri stjórnarskrá.

Ég nefndi áðan að menn töluðu hátt um að það væri uppnám á Alþingi. Ég ætla að ítreka það enn og aftur að ég upplifi ekkert uppnám á Alþingi. Mér finnst málið vera loksins komið í þann farveg að menn hafi tækifæri til að ræða af ró og skynsemi um það mikilvæga mál sem hefur verið haldið út af borðinu og þingið hefur ekki fengið tækifæri til að ræða saman. Okkur munar ekkert um að vera einhverja daga lengur í þingsal og ljúka umræðunni og klára þetta mál þannig að við getum farið frá þessu þingi með sóma og stolti af að hafa í það minnsta lokið einhverjum verkum sem skipta máli og þjóðin hefur kallað eftir.

Menn segja: Við höfum ekki tíma. Ég segi: Við höfum ekki fengið þann tíma sem við höfum þurft til að taka þessa umræðu. Vissulega eru hér fjölmörg mál á dagskrá. Sum brýn og önnur minna brýn, en það mál sem hér er til umræðu og á að vera ákveðið forgangsmál til að ljúka þingstörfum. Því er ekkert að leyna að skiptar skoðanir hafa verið um það hvernig hægt er að ljúka heildaryfirferð og umræðu og afgreiðslu stjórnarskrármálsins. Viðkvæðið af hálfu þeirra sem hafa talað gegn þessu máli og viljað tala það niður, tala það út af borðinu, hefur verið að málið sé fallið á tíma. Það er svo einkennilegt að það er ekki eins og menn væru að heyra þá setningu í fyrsta skipti í umræðunum í gær eða fyrir viku. Sú síbylja hefur hljómað hér nánast frá því að þetta mál fór af stað og kom til einhverrar umræðu og kynningar í tillöguformi á þinginu. Menn hafa viljað tala málið út af borðinu og hafa lagt það upp með þeim hætti að þeir hafa aldrei ætlað að koma því til formlegrar afgreiðslu. Það er auðvitað sannleikurinn í málinu.

Þingmenn stjórnarandstöðu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa aldrei ætlað að koma þessu máli til atkvæða. Þeir hafa lýst því ítrekað og skýrt yfir að málið verði ekki afgreitt. Síðast í umræðunum í morgun hljómaði þessi tónn og hann er búinn að hljóma ítrekað allan þann tíma sem málið hefur verið til umfjöllunar. Þetta er sannleikurinn og staðreyndin í málinu. Þetta er auðvitað það sem þjóðin þarf að gera sér grein fyrir, ef hún hefur ekki áttað sig á því, að við þessar aðstæður höfum við sem höfum borið þetta mál í nefndum þingsins og í þingsal þurft að starfa og starfa undir þeim hótunum að það er alveg sama í hvaða formi, með hvaða hætti eða á hvaða grunni málið er lagt til í tillöguformi til umfjöllunar, það skal ekki í gegn, það skal talað í kaf, því skal ýtt út af borðinu.

Staðreyndin er sú að núna 19. mars, er málið vissulega komið út á borðsendann en það mun ekki fara út af borðinu. Það mun ekki fara út af borðinu áður en þetta þing lýkur störfum. Við förum ekki héðan frá þessu þingi án þess að hafa lokið ákveðnum lykilatriðum í málinu.

Það verður líka að segjast eins og er að það hefur ekki hjálpað til fyrir þá sem hafa farið í forustu fyrir þessu máli, haft það í sínum verkahring að undirbyggja það og búa til afgreiðslu og umræðu í þingsal, að ekki hefur legið fyrir sá skýri og klári meiri hluti stjórnarliða sem þarf að vera til staðar til að ljúka málinu.

Virðulegi forseti. Ég verð að fá að segja þetta með þessum hætti, vegna þess að það er auðvitað hin skýringin á því að okkur hefur ekki auðnast að fara lengra með málið en raun ber vitni. Það hafa því miður ekki allir verið tilbúnir að fylgja málinu alla leið og nota þær aðferðir og þau tæki sem þarf til að ljúka því við þær aðstæður sem okkur er boðið að starfa við, við þær aðstæður þegar því er hótað ítrekað að málið skuli talað í kaf, því skuli ýtt út af borðinu. Þá vita menn auðvitað að það þarf að nota aðferðir til að ljúka máli við slíkar aðstæður. Þegar menn hafa ekki fullan styrk og stuðning allra í því liði sem á að mynda meiri hluta á þingi til að ljúka málinu með þeim hætti fer það ekki lengra en viljinn sem er til staðar til að koma því áfram leyfir.

Þannig er komið fyrir málinu á þessari stundu, en að mínu mati er hér skýr vilji og mér finnst hann hafa styrkst á síðustu sólarhringum, nú þegar komið er undir lok þessa þings og við erum reyndar komin fram yfir þann starfstíma og starfsáætlun sem hér hefur verið í gildi. Menn finna það í hjarta sínu og finna það af þeim þrýstingi og þeirri áeggjan sem kemur frá þjóðinni að málinu þarf að ljúka með þeim sóma að þeir geti verið sáttir í hjarta sínu.

Það er ekki svo eins og sumir vilja halda að þetta „stjórnarskrármál“ sé eitthvað sem skipti engu máli og öll önnur mál séu miklu mikilvægari. Við lásum um það síðast í morgun í Fréttablaðinu, í úttekt sem var þar gerð á vilja kjósenda, hvaða mál það eru sem liggja næst hjarta almennings og hvaða mál það eru sem menn vilja fylgja eftir. Það er að sjálfsögðu hagur heimilanna, það eru Evrópumálin og það er ekki síst stjórnarskrármálið. Það sem vekur sérstaka athygli í því er að það er unga fólkið okkar, framtíðarkynslóðirnar, sem ber það sérstaklega fyrir brjósti að þessu máli verði lokið frá Alþingi og þjóðin fái nýja stjórnarskrá. Við höfum skyldur gagnvart þjóðinni og ekki síst ungu kynslóðunum og framtíð okkar lands hvað þetta efni snertir.

Það er brýnt að við þingmenn sem höfum verið saman í því að fylgja þessu máli eftir, berum það fyrir brjósti, viljum að það nái fram, stöndum saman á þessum síðustu metrum í þinghaldinu og skilum árangri í málinu. Það mun reyna á það á allra, allra næstu sólarhringum hvernig tekst til í þeim efnum.

Það er mikið talað um tímann í þessu máli en ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hvernig það hefur gengið fyrir sig í starfi þingsins að öllu leyti, eins og það hefur komið að málinu frá því að það kom hér fyrst inn í upphafi kjörtímabilsins.

Það var í nóvember 2009 sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lagði fram frumvarp um ráðgefandi stjórnlagaþing sem skyldi ljúka störfum í apríl 2011. Það var hins vegar ekki fyrr en í júní 2010 sem Alþingi samþykkti að stjórnlagaþingið starfaði í fjóra mánuði eftir þjóðfund. Skipuð var undirbúningsnefnd, svokölluð stjórnlaganefnd. Í nóvember sama ár 2010 var haldinn þúsund manna þjóðfundur og þá var einnig kosið til stjórnlagaþings þar sem voru yfir 500 frambjóðendur. Í janúar 2011, fyrir rúmum tveimur árum, ógilti Hæstiréttur kosningar til stjórnlagaþings. Stjórnlaganefnd skilaði skýrslu eftir undirbúningsvinnu í sama mánuði og í mars 2011 skipaði Alþingi stjórnlagaráð á grunni kosninga til stjórnlagaþings. Það var síðan í apríl 2011 fyrir nánast réttum tveimur árum að stjórnlagaráð tók til starfa. Þá var liðið hálft þetta kjörtímabil þegar stjórnlagaráð gat loks tekið til starfa. Það skilaði tillögum sínum í lok júlí og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins fékk frumvarpið til umfjöllunar þegar reglulegt þing hófst í október 2011.

Næstu mánuði var farið skipulega yfir einstakar greinar og leitað álits sérfróðra aðila á því frumvarpi sem stjórnlagaráð hafði skilað inn til þingsins og í mars 2012 var lögð fram tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Viljinn var þá að slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram hugsanlega samhliða forsetakosningum sumarið 2012 eða á sumarmánuðum þannig að niðurstaða þeirra lægi fyrir og frekari undirbúningur málsins þegar þing kæmi aftur til starfa haustið 2012.

Við vitum hvernig fór fyrir því máli í þingsal á vordögum 2012 þegar enn eitt málþófið hófst. Það var ekki fyrr en á lokadögum þingsins í lok maí sem Alþingi náði að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu eftir langt og strangt málþóf. Sú atkvæðagreiðsla fór fram 20. október eins og öllum er kunnugt. Um haustið áður en atkvæðagreiðslan fór af stað var sérfræðinganefnd farin af stað sem var falið að fara sérstaklega yfir þær tillögur sem lágu fyrir af hálfu stjórnlagaráðs, skila áliti og umsögn. Hún skilaði í nóvember og í sama mánuði skilaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frumvarpi að stjórnarskrá fyrir Alþingi. Í desember var óskað eftir umsögn frá öllum þingnefndum á Alþingi auk þess sem hagsmunaaðilar, einstaklingar og aðrir sem létu sig málið skipta höfðu tækifæri og skiluðu inn í hundraðavís athugasemdum, ábendingum, stuðningi. Í janúar síðastliðinn var lagt fram endurskoðað og yfirfarið frumvarp að stjórnarskipunarlögum með yfir 50 breytingartillögum og lagt fram til 2. umr. Jafnframt lá þá fyrir að Feneyjanefndin svokallaða væri að yfirfara stjórnskipunarþátt málsins.

Álit Feneyjanefndar kom í febrúar eins og við þekkjum eftir að nefndin hafði meðal annars fundað hér með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ýmsum öðrum aðilum í íslensku samfélagi. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd boðaði að hún mundi leggja fram framhaldsnefndarálit og yfirferð á greinargerð frumvarpsins þegar álit Feneyjanefndar væri komið fram. Það var gert í lok febrúar og þann 3. mars síðastliðinn fór fram í þingsal umræða um framhaldsnefndarálitið. Sú umræða var endaslepp og nú erum við stödd hér undir lok mars, komið fram yfir starfsáætlun þings, að ræða í raun og veru útfærslur á því hvernig hægt sé að ljúka lágmarksafgreiðslu á ákveðnum lykilþáttum sem tengjast stjórnskipunarmálum, eftir alla þessa yfirferð og allan þennan tíma. Þannig liggur málið fyrir, en það liggur líka ljóst fyrir að hér hefur verið unnin ítarleg og vönduð yfirferð á þessu máli í heild sinni, glæsileg vinna, vil ég segja, sem er meðal annars að finna í framhaldsnefndaráliti upp á á annað hundrað blaðsíður.

Ég verð að segja að í allri þeirri umræðu sem hefur farið fram um stjórnskipunarmálin hef ég ekki heyrt nokkurn þingmann nefna að eitthvað skorti á í útfærslum, röksemdum eða framsetningu á málinu eins og það liggur fyrir. Það er athyglisvert, það er ánægjulegt að heyra það — eða reyndar að heyra það ekki vegna þess að það hefur enginn haft orð á því. Eina mótbáran sem hefur verið uppi á borði núna frá því að málið kom inn í endanlegum búningi í byrjun mars er sú að við séum fallin á tíma. Það er reyndar yfirlýsing sem við erum búin að heyra hér nánast undanfarin fjögur ár, að málið sé fallið á tíma, en það hafa ekki komið fram neinar athugasemdir eða málefnalegar ábendingar um að í greinargerð og efnisinnihaldi þessarar tillögu að nýrri stjórnarskrár sé að finna einhverja þá stóru meinbugi sem menn hafa viljað fara í efnislega umræðu um. Ég hef alla vega ekki heyrt það að neinu marki í þeirri umræðu sem fór fram þann 3. mars né heldur í umræðunni núna.

Það sem stendur upp úr umræðunni í gær — kannski munum við upplifa eitthvað nýtt í umræðunni í dag eða næstu daga — er að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki auðlindaákvæði, að minnsta kosti alls ekki það auðlindaákvæði sem er hér teiknað inn í stjórnskipunartillögurnar og þá tillögu sem formenn þingflokkanna, stjórnarflokkanna meðal annars, hafa lagt fram sem breytingartillögu við þessa umræðu.

Framsóknarflokkurinn vill ekki breytingarákvæði sem Sjálfstæðisflokkurinn er þó tilbúinn að skoða. Þannig að skoðanirnar eru dálítið út og suður hjá aðilum í þessu máli. Ég vil segja að mér er mjög í mun að það lykilákvæði varðandi auðlindamál sem hér er lagt inn verði afgreitt eins og það liggur fyrir. Ég sé í raun og veru lítil efnisleg rök fyrir því að ætla að fara í samninga um einhverjar aðrar útfærslur á því ákvæði en hér liggur fyrir eftir ítarlega og vandaða umræðu í alla staði. Sérfræðingar sem komu að því í þeirri þingmannanefnd sem vann tillögu að auðlindastefnu fyrir þrettán árum, árið 2000, hafa lýst því yfir, að minnsta kosti í mín eyru og margra annarra sem hafa fjallað um það mál, að sú tillaga, svo ágætlega sem hún er þó uppbyggð að grunni, er orðin ákveðið barn síns tíma eins og mál hafa þróast á umliðnum þrettán árum. Menn voru í algjörri grunnvinnu, að leggja grunn að útfærslu og reyna að átta sig á því hvernig ætti að orða hluti varðandi þjóðareign og hvernig mætti koma þeim fyrir í einföldum, skýrum texta.

Málin hafa auðvitað þróast með mjög skýrum hætti á þeim þrettán árum sem liðin eru og í allri þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um auðlindamál. Textinn eins og hann lítur út í dag hefur tekið miklum breytingum í útfærslu þó að efnisinntakið sé það sama og stjórnlagaráð lagði til. Menn hafa auðvitað áttað sig á því að lagatæknilega hefur þurft að setja málið fram mjög skýrt og afdráttarlaust. Þess vegna er textinn ítarlegur, þess vegna er hann skýr vegna þess að það er grundvallaratriði hvernig þetta mál er sett fram. Hvert einasta orð skiptir máli. Þetta er ekki texti sem nær eingöngu til auðlinda í sjó og hafi. Þetta er texti sem tekur til allra þeirra auðlinda sem máli skipta og snúa að þjóðinni á láði sem legi og til þess erum við að horfa. Hér er líka tekið á einkaeignarréttarákvæðum varðandi opinbera aðila eins og sveitarfélög sem eiga auðvitað eignir, hvort heldur er í jarðvarma eða öðru. Tekið er tillit til þess að Landsvirkjun hefur vatnsréttindin uppi á Þjórsársvæði og víðar og er ekki ríkið sjálft heldur opinbert fyrirtæki. Það þarf að horfa til þess hvernig skilgreiningarnar á þjóðareigninni eru, hvernig ráðstöfunarréttinum yfir þessum réttindum í ríkiseigu er háttað og einnig er horft sérstaklega til þess hvernig gjaldþátturinn er.

Það atriði sem meðal annars var gagnrýnt harkalega í þeirri tillögu frá 2000 sem fulltrúar Framsóknarflokksins lögðu í umræðuna — og mér þykir nú miður að horfa yfir þingsalinn og sjá að enginn fulltrúi framsóknarmanna situr hér til að taka þátt í umræðunni, vegna þess að það skiptir máli að framsóknarmenn geri sér grein fyrir því hvernig hlutirnir hafa þróast og eru að breytast ef menn vilja málefnalega umræðu um þetta mál. Ég gat ekki betur skilið í gær og fram eftir öllu kvöldi en að menn væru að kalla eftir því. En sá þáttur sem menn hafa sérstaklega vakið athygli á í tillögunni frá 2000 er þar sem segir, með leyfi forseta: „Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.“

Þetta ákvæði, um að slík heimild njóti verndar sem óbein eignarréttindi, sem menn settu inn í þennan texta árið 2000 hefur í raun og veru ekkert gildi eins og málum er háttað í dag annað en það að með því að hafa þennan texta svona er verið að ýta undir aukna vernd í slíkum tilfellum sem hér heyra undir varðandi nýtingu auðlinda, horft til þess sem þegar er tryggt í 72. gr. stjórnarskrárinnar varðandi eignarrétt. Það er ákveðin hætta, og í raun ekkert ákveðin hætta heldur skýr hætta sem felst í því að menn telji sig vera að eignast þar ákveðna hluti umfram það sem réttur er til. Það verður auðvitað að horfa á þessa þætti út frá slíkum lykilatriðum því að staðan er tryggð og rétturinn er tryggður eins og stjórnarskráin er uppbyggð að öðru leyti.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í langa umræðu. Ég sá enga ástæðu til þess í sjálfu sér að kalla eftir tvöföldum ræðutíma eins og var gert í gær. Ég tel rétt að við reynum að láta þessa umræðu ganga hratt og vel fyrir sig og ætla þess vegna ekki að nota allan þann ræðutíma sem mér er skammtaður. Ég vil hins vegar árétta enn og aftur að það er mikilvægt eins og málum er nú háttað að við komum frá þeim lykilatriðum sem brenna á þjóðinni í stjórnarskrármálinu. Ég nefndi það áðan að menn hafa notað allar aðferðir sem þeir hafa fundið til að reyna að ýta málinu út af borðinu. Það er vissulega komið út á borðsendann en ég mun nýta alla mína mögulegu krafta til að tryggja að það fari ekki út af borðinu. Það verði hins vegar ekki farið út úr þessum þingsal í lok þessa kjörtímabils öðruvísi en að við séum búin að afgreiða lykilatriði úr þessari stjórnarskrá.