141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hann tveggja eða þriggja spurninga. Hver er skoðun hv. þingmanns á þeirri breytingartillögu sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur lagt fram við frumvarpið sem við erum að ræða?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann um það sem hann gerði að umtalsefni í ræðu sinni. Hv. þingmaður talaði um að hans skoðun væri sú að hægt væri að afgreiða málið í heild sinni. Ég ber fulla virðingu fyrir þeirri skoðun en vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé þá ósammála til að mynda hv. þm. Árna Páli Árnasyni og hæstv. innanríkisráðherra sem töluðu um málið í gær og töldu efnisleg rök fyrir því að fjalla enn frekar um sérstakar greinar og hluta frumvarpsins en hefur verið gert.

Þegar hv. þingmaður segir mikilvægt, og hann gerir það að umtalsefni í ræðu sinni, að hafa stuðning meiri hlutans, þ.e. stjórnarþingflokkanna, stjórnarmeirihlutans á þingi, vil ég spyrja hvort hann eigi við frumvarpið sem formenn stjórnarflokkanna lögðu fram ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Er hann að vísa til þess að þeir aðilar og þeir hv. þingmenn sem báru hitann og þungann af vinnunni við frumvarpið í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki fengið þann stuðning frá samstarfsfólki sínu í meiri hlutanum? Er hv. þingmaður að vitna til þess frumvarps og þeirrar þingsályktunartillögu sem við erum að ræða núna?