141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:53]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega þannig að svör við þeim athugasemdum, tillögum og ábendingum sem fram komu frá hinu ýmsu aðilum í umfjöllun málsins birtast auðvitað í þeirri greinargerð sem fylgir frumvarpinu, þ.e. þar eru færð rök fyrir því hvers vegna textinn er hafður með þessum hætti en ekki einhverjum öðrum. Auðvitað komu fram ýmsar ólíkar ábendingar og sjónarmið í ýmsum þáttum í málinu.

Varðandi það atriði hv. þm. Péturs H. Blöndals um Lögréttu þá komu vissulega fram ólík sjónarmið í þeim efnum. Niðurstaða nefndarinnar var að leggja málið fyrir með þeim hætti sem við höfum í plagginu. En við skulum þá líka gera okkur grein fyrir því að þingleg meðferð mála byggir á þeim grundvallaratriðum að þegar þingnefnd eftir ítarlega yfirferð og umfjöllun um ábendingar og athugasemdir hefur farið yfir málið og lagt tillöguna fyrir þá er hún opin til umræðu og umfjöllunar í þingnefndinni þannig að allir hafi tækifæri til að koma að málinu.

Breytingartillögur koma fram og þingheimur hefur þá tækifæri til þess að ræða þær og gera þær breytingar sem næst hugsanlega einhver samstaða um. Sá þáttur málsins hefur bara ekkert fengið að koma fram hér í þinginu. Við höfum ekki fengið að taka málið alla leið. Það er sami vandi og ég á við og aðrir sem vildu klára þetta mál, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kvartar undan að það mál hafi ekki fengið eðlilega umfjöllun og umræðu. Það er kjarni málsins, við höfum ekki fengið að ljúka umræðunni, að minnsta kosti ekki hingað til.