141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. þingmanninn svo að af því að ekki hafi náðst breið sátt um tillögu formannanna um að breyta breytingarákvæðinu telji hann ekki að hún eigi að ná fram að ganga, ég skil það þannig, af því að ekki hafi náðst einhver breið sátt um það meðal formanna. Ég hélt að þingið ætti að skera úr um það en ekki formenn flokkanna hvort einhver tillaga nái fram hér eða ekki, það er mín skoðun.

Varðandi auðlindaákvæðið segir hv. þingmaður að það veki tortryggni að fram komi breytingartillaga um að breyta því og hann er ekki sammála því eins og það liggur fyrir. Hefur þingmaðurinn einhverja tillögu um ákvæðið um auðlindir í þjóðareign, hvernig það ætti að vera og hvernig það ætti að orðast? Ég hefði svolítinn áhuga á því að sjá hana og þá væri kannski hægt að sjá hvort einhver möguleiki er á því að ná saman um það mikilvæga ákvæði. Allir stjórnmálaflokkar, líka flokkur hv. þingmanns, hafa lýst því yfir að slíkt ákvæði eigi að koma inn í stjórnarskrána. Það væri fróðlegt að fá eitthvað úr þeim ranni þannig að við vitum hvort einhver von er til að nálgast í því efni.