141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður segir um formenn flokkanna eða hv. þingmenn liggur auðvitað alveg fyrir og við þurfum ekkert að vera með þrasa um hver afgreiðir málið. Ég var að tala um það út frá því hvernig við gætum varðveitt vinnuna inn á næsta kjörtímabil. Það er mín skoðun að nær hefði verið að gera það.

Hv. þingmaður spyr um tillögur um auðlindaákvæðið. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur sagt í fjögur ár að taka eigi einstakar greinar frekar en að endurskoða stjórnarskrána í heild og það hefur verið nefnt þar á meðal. Það hefur ekki verið tekið neitt mark á því og ekki ljáð máls á því. Menn segjast vilja heildarendurskoðun á stjórnarskránni, ekki skoðun einstakra greina. Það liggur fyrir í tugum þingræðna um það hvað við viljum gera.

Síðan segi ég við hv. þingmann, vinkonu mína, Valgerði Bjarnadóttur: Við megum ekki nálgast verkefnið svona, hv. þingmenn stjórnarflokkanna halda því fram að lausnin sé að leggja fram breytingartillögu á auðlindaákvæðinu eftir að þingstörfum átti að ljúka samkvæmt starfsáætlun þingsins, þá koma loksins fram hugmyndir að breytingartillögu um auðlindaákvæðið.

Hefði ekki verið nær að taka þá umræðu fyrr og hlusta á ákall forustumanna okkar í Sjálfstæðisflokknum um að taka einstakar greinar? Staðan er hins vegar sú að það var ekki gert. Ég tel því mikilvægt, og það er mín persónulega skoðun, ef við ætlum að varðveita vinnuna, vegferðina og horfa til framtíðar, að reyna að ná sem breiðastri samstöðu um tillögu formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Svo ég svari spurningu hv. þingmanns mun ég leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.