141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:44]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir hans ágætu yfirferð áðan. Það er margt sem maður getur tekið undir í máli hans sem snýr að þessum atriðum. Auðvitað hefur þetta verið átakaþing og erfitt pólitískt ástand og það hefur truflað og komið kannski allt of oft í veg fyrir að menn gætu sest niður í ró og yfirvegun og rætt þau mál sem þeir hefðu örugglega getað náð betur saman um. Ég tek undir það með honum.

Mig langaði að fylgja eftir þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir var með á undan um auðlindaákvæðið og hlut og aðkomu Sjálfstæðisflokksins í því máli. Ég skildi svar þingmannsins þannig að vegna þess að ákveðið var að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni væri ekki hægt að fara í efnislega umræðu um einstök atriði — sem voru samt uppi á borði sem forgangsmál af hálfu Sjálfstæðisflokksins, til að mynda.

Ég vísa til nýrrar ályktunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins á dögunum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið hlynntur því að setja ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Landsfundur telur tímabært að komist verði að sátt um slíkt ákvæði en leggur áherslu á að einkaeignarrétturinn verði ávallt virtur.“

Þetta liggur alveg skýrt fyrir og þetta er ekkert í fyrsta skipti sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktar í þessa veru. Þess vegna spyr maður: Hvernig stendur á því að ekkert efnislegt hefur komið fram? Það var ekki þannig að hér væri að detta inn 3. mars tillaga um auðlindaákvæðið. Það kom fram í tillögu stjórnlagaráðs í júlí 2011, það kom inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd strax í október 2011, við erum búin að ræða það í hálft annað ár í þinginu með einum og öðrum hætti, en viðbrögðin eru engin. Maður fær engin svör og ekkert efnislegt inn í þessa umræðu frá Sjálfstæðisflokknum.