141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:49]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég benti á í ræðu minni fyrr í morgun að það blasir við að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa í umræðunni í gær og aftur í dag lýst því yfir að þeir séu ekki tilbúnir að fara í efnislega umræðu og telji ótækt að verið sé að koma fram með þessa breytingartillögu um auðlindaákvæðið. Það er þvert á það sem er þó að heyra af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins sem þeir hafa lagt til efnislega í þá umræðu. Þótt ég sé ekki tilbúinn að taka að öllu leyti undir það ákvæði frá 2000 sem þeir vísa til eru þeir þó tilbúnir að ræða málið, þeir opnuðu á það fyrir nokkrum vikum og halda því enn opnu hér í umræðunni.

Það blasir því við að eini stjórnmálaflokkurinn á þingi sem ekki er tilbúinn að ræða efnislega um auðlindaákvæðið þrátt fyrir landsfundarsamþykktir þess efnis að brýnt sé að klára það mál er Sjálfstæðisflokkurinn. Hann hefur ekki verið tilbúinn að leggja neitt inn í þá umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í bráðum tvö ár. Maður hlýtur því að spyrja sig: Er þetta ekki skýr yfirlýsing um að ekkert sé að marka orð um að menn vilji setja ákvæði um þessi atriði? Það hefur ekkert komið fram um það á hvaða grunni og á hvaða forsendum Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að teikna upp slíkt ákvæði. Það hafa heldur ekki komin nein skýr, afgerandi svör um hvað sé svo ómögulegt í því ákvæði sem hér liggur fyrir og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin hefur að bestra manna yfirsýn og yfirlegu lagt fyrir.

Ég heyrði í ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar í gær að það væri eiginlega helst ómögulegt við ákvæðið að það væri allt of langt og of flókið. En ég náði ekki efnislegu athugasemdunum og ég kalla enn eftir þeim.