141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að það sé mjög mikið tjón ef öll sú vinna sem tengist þessu máli fer forgörðum og eins það að þetta ferli allt byggir mikið á átökum, þetta sé átakaferli og menn mikið í því að detta niður í hjólför og takast á í staðinn fyrir að leita sameiginlega að lausnum.

Ferlið hefst þannig að nýkjörnir formenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason, ásamt með formanni Bjartrar framtíðar leggja fram frumvarp um að breyta breytingartillögunni. Þetta var fyrsta vers. Þá átti að setja inn nýtt ákvæði til bráðabirgða um stundarsakir þar sem hægt yrði að breyta ákvæðinu með þjóðaratkvæðagreiðslu sem yrði bindandi. Ég fer nánar út í það á eftir.

Síðan kemur breytingartillaga frá nefndinni eftir að hafa fjallað um þetta og þá er þetta ekki lengur til bráðabirgða heldur gert varanlegt en við hliðina á gamla ákvæðinu. Þá kemur upp mjög sérkennileg staða sem ég mun fara betur yfir á eftir.

Síðan gerist það sem er mjög merkilegt, það kemur tillaga frá þingflokksformönnum Vinstri grænna og Samfylkingar ásamt með tveimur öðrum þingmönnum um að ræða líka auðlindaákvæðið eitt sér úr þeirri vinnu sem unnin hafði verið. Ég mun fara í gegnum það líka, en þetta er mjög undarlegt ferli. Af hverju voru formennirnir ekki með þetta inni strax? Ef þeim skyldi hafa snúist hugur, af hverju voru þeir þá ekki með á þessu frumvarpi líka og bættu þessu við? Það er eins og það sé mjög mikill ágreiningur innan þessara flokka um þá aðferð sem formenn flokkanna notuðu, að beita bara 79. gr. Ég var eiginlega alveg bit og hlessa þegar þetta kom fram vegna þess að þetta gerði ekkert annað en að tefja málið sem hefði getað orðið tiltölulega einfalt í ferli með því að breyta eingöngu 79. gr. Ég kem inn á það á eftir eins og ég segi.

Svo gerast þau miklu tíðindi að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir flytur fram eitt stykki stjórnarskrá sem breytingartillögu. Þá er í fyrsta lagi spurningin um hvort þetta auðlindaákvæði og heil stjórnarskrá séu þingtæk vegna þess að það mun ekki fá þrjár umræður, auk þess sem þær eru efnisóskyldar þeirri breytingartillögu sem formennirnir lögðu fram sem fólst í því að breyta eingöngu breytingartillögunni, þ.e. hvernig stjórnarskránni er breytt.

Það var litið á þetta sem þingtækt og menn hafa kallað þetta ýmsum nöfnum, m.a. tundurskeyti. Ég mundi bara kalla þetta tæra snilld vegna þess að þetta er mjög snjallt og setur allt málið í uppnám. Spurningin er hvort það nýtist málinu hins vegar þegar til einhverra ára er litið og þess hvort menn vilji að þessi mikla vinna fari forgörðum eða ekki.

Ef ég fer í gegnum frumvarp formannanna þyrftu eins og ég segi 3/5, þ.e. 60%, af þingmönnum, 38 þingmenn af 63, að samþykkja tillöguna á Alþingi og síðan 60% af kjósendum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá erum við að tala um af greiddum atkvæðum. Það getur verið mjög lítið. Ef 20% mæta á kjörstað dugar að 12% atkvæðisbærra manna samþykki. Ég mundi segja að það væri algjör háðung fyrir Alþingi.

Ég hef flutt um þetta frumvarp ásamt með fjölda annarra þingmanna, það eru 11 þingmenn auk mín úr Sjálfstæðisflokknum og síðan margir aðrir góðir þingmenn. Sú tillaga gekk út á það að breyta eingöngu 79. gr. Ég hef flutt tillöguna í tvígang og á þessari tillögu eru meðal annarra Margrét Tryggvadóttir, sú sem fann snilldarlausnina, og hv. þingmenn Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir, öll úr Hreyfingunni. Sú tillaga gekk út á það að stjórnarskránni yrði breytt með því að 40 af 63 þingmönnum greiddu því atkvæði á Alþingi, þ.e. nokkuð ríflegur meiri hluti, og síðan yrði tillagan lögð fram innan þriggja mánaða undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri kosningu og síðan þyrfti helmingur allra kjósenda að samþykkja tillöguna til að hún yrði tæk. Þetta er mjög hár þröskuldur og ég skil að mönnum finnist hann fullhár. Við viljum ekki hafa þröskuldana, hvorki á þingi né meðal þjóðarinnar, svo háa að aldrei verði gerðar breytingar á stjórnarskránni. Það er ekki meiningin. Hins vegar mega þeir heldur ekki vera svo lágir að hér verði breytingar á stjórnarskránni alla daga, jafnvel eftir því sem vindurinn blæs og jafnvel þannig að litlir pólitískir hagsmunir geti haft áhrif á breytinguna með því að menn skori á sitt fólk að mæta til kosninga og ná þannig fram þessum litla 25% mun. Þarna á milli eru mörk eða þröskuldar sem eru það háir að til dæmis pólitískir flokkar eða stjórnarmeirihluti eða eitthvað slíkt geti ekki breytt stjórnarskránni og þurfi því að taka minni hlutann með. Ég lít þannig á að stjórnarskráin eigi að vera sameiginleg fyrir alla þjóðina og á það finnst mér hafa skort töluvert mikið í þessu ferli.

Þarna þarf að finna eitthvert meðaltal. Menn hafa ekki verið mikið til viðræðu um það, kannski hefur það ekki verið rætt nógu mikið. Svo vilja sumir þingmenn hreinlega halda því áfram að tvö þing þurfi til að samþykkja breytinguna. Þeir telja að það séu mjög hægfara breytingar en þær geta nefnilega verið þannig, eins og hefur verið bent á, að ef tveir flokkar eru í meiri hluta og halda áfram að vera í meiri hluta þarf ekkert voðalega mikið til að breyta stjórnarskrá. Þá geta þeir samþykkt stjórnarskrá alveg án tillits til stjórnarandstöðunnar og þegar nýtt þing er kjörið samþykkja þeir sína eigin stjórnarskrá án þess að stjórnarandstaðan komi neitt að því. Þarna getur verið töluverður lýðræðishalli í breytingum á stjórnarskránni og ég held að það sé ekki gott heldur. Þar fyrir utan er ég svo mikill lýðræðissinni að mér finnst alveg fráleitt að þjóðin greiði ekki atkvæði um sína eigin stjórnarskrá. En það er einmitt það sem stefndi í ef ætlunarverkið hefði tekist, að samþykkja eitt stykki stjórnarskrá, þá hefði nefnilega næsta þing samþykkt það, ekki þjóðin. Þegar næsta þing er kjörið eru kjósendur ekkert að hugsa um stjórnarskrá. Þeir eru að hugsa um hvaða menn þeir vilja láta stjórna landinu næstu fjögur árin, efnahagsmál, stöðu heimilanna og alls konar mál þannig að hættan er sú að það komi aldrei til atkvæða þjóðarinnar með bindandi hætti. Það tel ég mjög miður. Þess vegna hef ég flutt þetta frumvarp í tvígang og ég hef ekki séð neina aðra leið til að þjóðin greiði um þetta atkvæði. Þess vegna var ég á vissan hátt hrifinn af þessu framtaki formanna Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartar framtíðar. Þeir tóku upp mína hugmynd, reyndar með því að hafa það til bráðabirgða, og ég var ánægður með það. Þá mundi þó þjóðin greiða bindandi atkvæði í einhverjum skilningi um stjórnarskrána.

Síðan fer þetta í nefndina og nefndin gerir á þessu furðulega breytingu, tekur í burtu bráðabirgðaákvæðið, sem mér fannst alltaf gallað, en lætur tvö ákvæði gilda. Þannig stendur málið í dag.

Þá gerast mjög undarlegir hlutir, frú forseti. Þá geta nefnilega þingmenn ráðið hvort þetta fer í hefðbundið ferli, þ.e. samþykkt í lok kjörtímabils og næsta þing samþykki það, nokkuð sem þingmenn kæra sig ekki um að þjóðin greiði atkvæði um af því að það varðar þeirra hagsmuni. Það sem menn vilja, sem er lýðfræðilega vinsælt, senda þeir til þjóðarinnar. Þetta finnst mér bara ekki hægt.

Jæja, ég verð víst að gefa í vegna þess að ég held að ég sé búinn að tala nægilega mikið um breytingar á stjórnarskránni og vil ítreka að það er það sem við eigum að gera, þ.e. þau okkar sem vilja að þjóðin greiði atkvæði um stjórnarskrána sína. Þar er ég. Hins vegar tel ég ekki gott að þjóðin greiði atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá. Það er ekki nógu góður bragur á því. Það er svo víðfeðmt efni að ekki nokkur maður getur sett sig inn í það án þess að vera í fullri vinnu við það. Þess vegna tel ég að það eigi að taka þetta í einhverjum bitum. Það mætti til dæmis taka auðlindaákvæðið fyrst, eitthvað sem menn eru sæmilega sáttir við og hefur verið vel rætt. Reyndar er það ekkert útrætt eins og ég kem inn á á eftir.

Síðan færu menn kannski ári seinna í aðrar breytingar. Til dæmis finnst mér mikið vanta þar sem ekki er minnst á Hæstarétt í núverandi stjórnarskrá. Hann er bara ekki til og ég mundi vilja að menn útfærðu hugmyndir um Lögréttu miklu betur, að Lögrétta sé fullskipaður Hæstiréttur og að þangað sé hægt að vísa málum sem menn efast um á þinginu að standist stjórnarskrá, en líka að mál sem koma upp í gegnum dómskerfið fari til Hæstaréttar sem er fullskipaður. Hann getur þá eftir á dæmt um það sem stjórnlagadómstóll hvort ákveðið lagaákvæði standist stjórnarskrá eða ekki. Þetta tel ég að væri mikið til bóta og ég lagði það til í mikilli umsögn sem ég skrifaði — það er mjög óvenjulegt að þingmenn skrifi umsagnir til þingnefnda — og skilaði 21. febrúar 2012, fyrir einu ári og einum mánuði.

Þetta er um breytingar á stjórnarskránni og ég ætla að vona að ég sé búinn að koma því skýrt á framfæri.

Þá ætla ég að ræða um þetta merkilega fyrirbæri sem kom fram frá þingflokksformönnum Samfylkingar og Vinstri grænna. Þeir skella hérna inn auðlindaákvæðinu og segja: Ja, þetta er fullrætt og við höfum sætt okkur við þetta. En það er ekki þannig vegna þess að framsóknarmenn komu með einhverja tillögu um daginn og það varð allt vitlaust þannig að það er engin sátt um þetta mál. Það að leggja fram auðlindaákvæðið sem er hluti af nýrri stjórnarskrá og alls ekki tengt breytingum á henni, og spurning hvort það sé þingtækt, gerir ekkert annað en að rugla dæmið. Tillaga formannanna gekk út á að koma með einfalda breytingu sem miðaði að því hvernig stjórnarskránni yrði breytt til að ná fram sáttum og til að varðveita alla þá vinnu sem unnin hefur verið. Auðlindaákvæðið gerir ekkert annað en að tefja málið og kasta upp nýjum vandamálum.

Ég ætla að ræða um auðlindaákvæðið af því að ég hef dálítinn áhuga á því. Ég hef haft miklar spurningar um auðlindaákvæðið.

Í fyrsta lagi: Hvað er auðlind? Það sem við köllum auðlindir í dag voru ekki auðlindir fyrir 50 eða 100 árum. Ég er margbúinn að segja þetta. Jökulárnar voru til bölvunar í hverri sveit. Menn komust ekki yfir þær nema með ferju eða með því að sundríða hrossum. Menn töpuðu bæði eigin lífi og hunda og hesta. Sjávarútvegurinn var ekki beysnari en það að við Íslandsstrendur dó á hverju einasta ári fjöldi sjómanna, tugir sjómanna, ef ekki hundruð. Það kalla ég ekki auðlind, enda var þjóðin bláfátæk, sú fátækasta í Evrópu sem væri undarlegt ef hún byggi rétt við einhverja auðlind.

Það var ekki fyrr en mannauðurinn kom inn í dæmið sem þetta urðu auðlindir, skipin urðu örugg vegna starfa frábærra verkfræðinga, tæknifræðinga og skipasmiða og tölvufræðinga sem hanna alls konar tæki og tól. Ég man eftir því þegar verið var að leita að gúmmíbjörgunarbátum um allar trissur og enginn vissi hvar þeir voru. Núna vita menn staðsetninguna úti um allt þannig að öryggið er orðið miklu meira, þökk sé mannauðnum, frú forseti. Auðlindir eru ekkert á hreinu, þær eru breytilegar. Menn hafa aðallega talað um sjávarútveg og orku en í fréttum á mbl.is í gær segir Ari Edwald verð tíðniheimilda lágt. Hvað skyldi það vera? Það er heimild til að nota ákveðið tíðnibil, 15 megarið af tíðniheimildum. Þetta er lágt, segir hann, því að fyrirtækið greiðir 120 milljónir fyrir 25 ára notkun á þessum tíðniheimildum. Ég er hræddur um að þetta sé nýtt kvótakerfi. Þetta eru 4,8 milljónir á ári fyrir að nota þessar tvær tíðniheimildir. Það kemur fram í fréttinni að þetta séu 10% af því sem verðið er í Bretlandi á íbúa. Verðið er sem stendur óhemjulágt hér á landi. Þetta á eflaust eftir að hækka í verði og þá kemur spurningin um auðlindina, hvort þetta sé ekki auðlind, þessi takmarkaði aðgangur að rafsegulbylgjum sem er tíðnidreifing rafsegulbylgna sem flytja upplýsingar og slíkt. Við horfum upp á það að það geta orðið fjöldamargar nýjar auðlindir á ekki löngum tíma. Ég hef margoft bent á til dæmis kolefnislosun og verð á henni. Hún getur hækkað mikið í heiminum og ég vona að menn fari út á þá braut eins og Evrópusambandið er komið inn á. Það er ýmislegt gott sem kemur frá Evrópusambandinu, bara til að hafa það á hreinu, og ef Kínverjar og Bandaríkjamenn fallast á þetta kerfi mun verð á óhreinni orku hækka mjög mikið í heiminum vegna þess að þeir þurfa að borga svo mikið fyrir kolefnislosun. Mest af orku í heiminum er framleitt með brennslu olíu, gass og kola, þ.e. sem býr til koldíoxíð. Svo er ekki hér á landi.

Hvað mundi gerast? Verð á orkunni mundi stórhækka, og mun stórhækka, en ekki skuldir íslenskra orkufyrirtækja. Ég hugsa að þetta sé mesta auðlind Íslands og það er ekki talað um það í þessu frumvarpi.

Svo kemur fram í breytingartillögunni að handhafar „löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar“.

Hverjir skyldu það vera? Þetta er ríkið. Ríkið fer með þetta, þetta er ríkisvæðing og það að skeyta við „í umboði þjóðarinnar“ er merkingarlaust, það getur enginn sagt hvað þjóð er. Það er bara þannig. Jafnvel í tillögu frá stjórnlagaráðinu um (Gripið fram í.) nýja stjórnarskrá er ýmist talað um „borgara“, „okkur“ eða „okkur sem búum á Íslandi“, eitthvað svoleiðis. Það segir mér að þetta eru íbúar Íslands, ekki ríkisfang, ekki íslenskur ríkisborgararéttur enda er fráleitt að útlendingar sem hafa búið hérna í 40 ár og borgað hér skatta og skyldur og eiga hérna lífeyrisréttindi og annað slíkt séu ekki þjóðin. Um þetta hefur ekkert verið talað.

Ég hef hitt fólk sem er íslenskir ríkisborgarar, hefur aldrei komið til Íslands, kann ekkert í íslensku og veit ekkert hvað er að gerast á Íslandi. Er það fólk þjóðin? Ég segi nei. Þetta er óljóst.

Svo kemur nefnilega dálítið merkilegt. Hér stendur, með leyfi frú forseta:

„Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli …“

Hvað segir þetta mér? Við verðum að hætta með alla félagslega úthlutun á aflaheimildum. Það þarf að hætta pottum og pönnum sem eru sett til byggðajöfnunar því að það er ekki á jafnræðisgrundvelli sem menn fá að veiða úr þeim pottum eins og þeir sem borga fullt verð. Strandveiðar munu leggjast af því að þær þurfa að borga fyrir kvótann nákvæmlega eins og aðrir og þá er allur hagur af strandveiðum löngu farinn. Svo er línuívilnun og allt slíkt, allar þessar ívilnanir sem menn hafa sett um úthlutun veiðiheimilda utan kerfis, smábátarnir sem á sínum tíma fengu feiknarlegar úthlutanir án þess að borga fyrir þær, þetta verður ekki lengur heimilt. Hafa menn rætt þetta, frú forseti? Ég man ekki til þess.

Ef ég hef einhvern rangan skilning á þessu „á jafnræðisgrundvelli“ væri kannski betra að hafa þetta skýrar í nýrri stjórnarskrá þannig að ég fari ekki að halda þessu fram ef það er vitleysa. Þá þarf að standa nákvæmlega að það megi kaupa sér atkvæði með því að hafa strandveiðar, t.d. fyrir stjórnmálamenn.

Ég sé þarna verulega mikil áhrif af þessari breytingartillögu um auðlindaákvæðið og svo segja menn að þetta sé útrætt. Ég fullyrði að þetta er ekki útrætt. Að minnsta kosti finnst mér að menn ættu að hafa þetta nokkurn veginn á hreinu áður en þeir halda áfram að ræða þetta. Ég tel að þetta auðlindaákvæði geti á margan hátt verið gott en þá eiga menn að hætta að tala um þjóð. Þetta eru ekki auðlindir í sameign þjóðar, heldur auðlindir í forsjá og umsjá ríkisins. Það er náttúrlega ekki nándar eins fallegt að segja að þetta auðlindaákvæði sé ríkisvæðing á öllum auðlindum.

Það er svo merkilegt að ég hef verið að kássast í mörgum af þessum málum og hef reyndar flutt frumvarp um að dreifa kvótanum á þjóðina, á íbúa landsins, okkur sem búum hér á landi. Ég hef flutt frumvarp um að dreifa kvótanum til 40 ára á hina raunverulegu þjóð. Það hefur ekki hlotið mikinn hljómgrunn, enda eðlilegt, þá geta menn ekki lengur verið að „víla og díla“ og ráðskast með auðlindina, þá er það ekki lengur ríkið sem á hana heldur hver einasti íbúi. Ég er búinn að flytja um það tillögu að henni verði úthlutað á hverju einasta ári þannig að aflahlutdeildin geti ekki safnast á fáar hendur. Þetta verður hlutdeild af heildarafla á Íslandsmiðum sem hver einasti íbúi fær til 40 ára. Þetta er ég búinn að flytja og þetta frumvarp liggur fyrir í atvinnuveganefnd en hefur ekki verið útrætt og ekki afgreitt úr nefndinni þó að önnur miður góð kvótafrumvörp hafi verið afgreidd. Ég er búinn að flytja um þetta frumvarp.

Ég hef líka viðrað þá hugmynd sem allt að því jaðrar við guðlast en það er að selja Landsvirkjun en með mjög skrýtnum hætti, selja afnotin af til dæmis Jöklu í 40 ár. Þetta hef ég lagt til. Síðan yrðu þau seld aftur og aftur og þá með þeirri hugsun að 40 ár í hugum einstaklinga og fyrirtækja eru nánast eilífð en 40 ár í sögu þjóðar eru mjög stuttur tími. Íslendingar hafa búið á Íslandi í þúsund ár þannig að 40 ár eru ekki langur tími. Þá er hægt að selja þessa auðlind aftur og aftur og það sem meira er, ríkið tekur ekki áhættu af rekstrinum sem er umtalsverð.

Ég er búinn að fara í gegnum sem sagt þó nokkuð margar og hugsanlegar auðlindir og ég er búinn að fara í gegnum það hvernig hún virkar, þessi breytingartillaga sem ruglar alla umræðuna um þessa einföldu breytingu á 79. gr. Það sem er undarlegt í þessu er það að þau sem fluttu tillöguna upphaflega, þ.e. formenn flokkanna, nýkjörnir allir, fá eiginlega skot á sig frá þingflokksformönnunum með því að þeir koma með svona viðamikla breytingartillögu sem veldur umræðu. Ég varpa hér upp að þetta geti bannað allar strandveiðar, potta og annað slíkt sem menn hafa verið með, línuívilnun og því um líkt. Þetta þarf náttúrlega að ræða og það er útilokað að ræða það þegar á að fara að slíta þinginu og meira að segja fara í kosningar. Ég mundi segja að þessi breytingartillaga þingflokksformannanna sé allt að því skemmdarverk á þeirri hugsun sem flokksformennirnir fluttu og ég hef verið að ræða hérna, þ.e. sem hv. þm. Árni Páll Árnason, hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir, formenn Samfylkingar og Vinstri grænna, og síðan hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, fluttu. Hér stendur að meiningin hafi verið þessi:

„Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar stjórnarskrárinnar sem staðið hefur undanfarin ár.“ (Gripið fram í.)

Menn gætu eflaust sæst á þetta og ég er búinn að spyrja hérna aftur og aftur: Af hverju er ekki búið að gera áætlun um þau mál sem á að afgreiða? Af hverju er ekki búið að ganga frá breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar og af hverju eru menn ekki sestir niður og búnir að fá niðurstöðu?

Frú forseti. Ég verð að segja það, það er út af vantrausti og tortryggni. Tillaga Margrétar Tryggvadóttur endurspeglar þetta. Hún flytur hér tillögu um heila stjórnarskrá og hvað gæti gerst? Menn óttast það hver og einn að þetta verði hreinlega samþykkt ef atkvæði verða greidd um það. Nú hafa margir ráðherrar og þingmenn borið það af sér þegar ég hef spurt þá hvort þeir muni samþykkja tillögu Margrétar Tryggvadóttur og sagt: Alls ekki. En gildir það eitthvað þegar um það er að ræða að samþykkja eitt stykki stjórnarskrá? Margir í mínum flokki mundu líta á það sem hreina skelfingu vegna þess að í nýrri stjórnarskrá sem hefur í sér mjög marga kosti, mjög margar góðar hugmyndir, eru líka hlutir sem menn eru hræddir við að verði samþykktir, t.d. auðveldari aðild að Evrópusambandinu og auðlindaákvæðið sem er ekki endanlega rætt, fyrir utan alls konar vitleysu. Ég fór í gegnum það og ætla rétt aðeins að ræða þetta vantraust og tortryggni. Ég held að það hái þinginu mest. Menn eru mjög brenndir á viðbrögðum og því sem þeir kalla svik annarra. Það vantar traustið til að ná samningum. Það er mjög dapurlegt og ég ætla að vona að þessi vinna við stjórnarskrána líði ekki fyrir það því að það er margt góðra hugmynda.

Ég er búinn að geta um það áður að ég tel að það eigi að gera breytingar á stjórnarskránni í hæfilegum hlutum sem kjósendur og þingmenn geti gert sér mjög vel grein fyrir og gert sér grein fyrir hvernig virka.

Þá ætla ég núna að ræða breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur því að hún leggur fram eitt stykki stjórnarskrá. Ég þarf því eiginlega að ræða eitt stykki stjórnarskrá, frú forseti. Ég á reyndar ekki nema 11 mínútur eftir en ég ætla þá að vísa í umsögn sem ég hef nefnt áður, umsögn sem ég sendi 21. febrúar 2012 til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar fer ég í gegnum hverja einustu grein í tillögum stjórnlagaráðs og geri athugasemdir við margar.

Það sem ég geri fyrst og fremst athugasemdir við er að það er krafa um það mjög víða í frumvarpinu, á 80 stöðum, að tiltekið ákvæði í stjórnarskránni fái ekki gildi nema um það séu sett lög á Alþingi. Þetta finnst mér mjög miður. Til dæmis stendur hér:

„Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ (Gripið fram í.) Með lögum, þ.e. það er ekkert í stjórnarskránni ef það eru engin lög. Þegar Hæstiréttur fer að dæma eftir þessu segir hann: Hvar eru lögin, hvar er ákvæðið?

Það sem ég vildi segja er hreinlega að börn eiga rétt á umönnun og framfærslu. Ég meira að segja víkka ákvæðið út. Það á bara að standa klippt og skorið að þau eigi þennan rétt. Það á að standa í stjórnarskránni og enginn á að vera í vafa um það.

Sömuleiðis kemur fram að frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gagnsætt eignarhald skuli tryggja með lögum. Það gerist ekki neitt nema Alþingi verði virkt. Ég vil segja: Fjölmiðlar skulu vera frjálsir, ritstjórnir þeirra sjálfstæðar og eignarhaldið gagnsætt.

Þá liggur fyrir í stjórnarskránni hvernig menn vilja hafa þetta. Það er svo merkilegt, frú forseti, að það hefur ekkert verið tekið á þessu. Hv. nefnd tók ekkert á þessu sem er þó mjög auðvelt að gera. Hún kom ekki heldur með athugasemdir um að þetta væri einhver della í mér. Ég hef stundum á tilfinningunni að umsögn mín hafi ekki verið lesin.

Það sem ég sakna eiginlega mest er ákvæðið um að 2% kjósenda geti lagt fram frumvarp. Þetta er náttúrlega algerlega tómt ákvæði. Ef 2% kjósenda, fleiri þúsund manns, kæmu með tilbúið frumvarp inn á Alþingi hlytu þau að finna einn þingmann til að leggja það fram vegna þess að sá þingmaður gæti þar með verið kominn með velvild. Ef þessir kjósendur finna alls engan þingmann, af því að hver einasti þingmaður getur lagt fram frumvarp, til að flytja þetta frumvarp er náttúrlega spurning hvaða möguleika þetta þingmál á yfirleitt. Það á akkúrat enga möguleika. Þetta ákvæði er tómt, það kemur aldrei upp og er óþarft.

Síðan er ákvæðið um að 10% þjóðarinnar geti lagt fram frumvarp á Alþingi. Margoft hefur verið bent á að í fyrsta lagi fer í gang langt ferli sem tekur tvö ár með öllu því sem getur gerst, Alþingi leggur fram gagnfrumvarp og svo þarf að ræða við forsvarsmenn þessa frumvarps o.s.frv. Það er ekki á hreinu hver mælir fyrir því og ég tel að það fari svo mikið reiptog í gang að það er með ólíkindum. Þegar staðan er orðin slík að 10% kjósenda eru komin með frumvarp og eru að rífast við Alþingi um hvort leggja megi það fram finnst mér miklu skynsamlegra að hafa bara eitt ákvæði fyrir þessi bæði og ég lagði það til, t.d. að 15% kjósenda geti óskað eftir atkvæðagreiðslu um þingrof. Það er hins vegar miklu afdrifaríkara mál, þess vegna mundi ég vilja hafa þröskuldinn hærri, en þá eru líka kjósendur farnir að hafa virkileg áhrif á stjórn landsins. Ef meiri hluti þjóðarinnar samþykkir þingrof er þing rofið og boðað til kosninga. Það er svo einfalt. Þá er ekki neitt rifrildi um það fram og til baka hvort ákveðnar reglur séu í gildi eða ekki.

Þetta var heldur ekki rætt og ekki afgreitt og ekkert tekið á þessu. Það er mjög margt sem ég bendi á í þessari umsögn sem ekki er tekið á.

Síðan er tilvísun stjórnarskrárinnar í einstaklinginn, þ.e. hver heyrir undir stjórnarskrána. Það er bara út og suður. Það er talað um „manneskjuna“, „manninn“, „okkur sem búum á Íslandi“, ríkisborgararétt og borgara út og suður. Það er ekki þannig að um þjóðina eða þá sem heyra undir stjórnarskrána sé notað eitt orð. Önnur tungumál hafa betri orð eins og þýskan sem er með „Der Mensch“, það er þá „mannveran“ eða „maðurinn“ og í ensku er „human being“. Þetta gæti verið „manneskja“ á íslensku en þetta er ekki notað í stjórnarskránni, alls ekki alltaf talað um manneskju. Svo er bara alls ekki á hreinu fyrir hvern stjórnarskráin er. Ég hef nefnt það áður. Eru útlendingar sem hafa búið hérna í 20 ár eða 40 ár „við sem búum á Íslandi“? Eru menn það eftir tvö ár eða eitt ár? Eru ferðamenn „við sem búum á Íslandi“? Þetta hefur ekkert verið afmarkað þannig að ég er dálítið gáttaður á þessu ákvæði.

Svo er talað um persónukjör. Ég er í sjálfu sér mjög hlynntur persónukjöri. Minn flokkur hefur stundað það mjög ítarlega með prófkjörum þar sem ekki bara 190 manns taka þátt heldur mörg þúsund. Í síðasta prófkjöri fékk ég til dæmis 6 þús. atkvæði í sameinuðu kjördæmi í Reykjavík þannig að sá flokkur er með mjög víða skírskotun til kjósenda. Ég stakk upp á því að það yrði sameiginlegt prófkjör allra flokka. Kannski þrem mánuðum fyrir kosningar yrðu menn að vera búnir að skrá sig, þeir sem ætluðu að bjóða fram, ég held að það sé ágætisagi að menn séu þá búnir að skrá sig, hverjir verði á lista og hverjir bjóða sig fram, og síðan yrði sameiginlegt prófkjör allra flokka sem tæki þrjár vikur eftir að menn væru búnir að skrá sig til kosninga og þá yrði þinginu lokað á meðan. Mér finnst ekki hæfa að við þingmenn höfum þennan ræðustól inn í kosningabaráttuna til að berjast við fólk sem ekki hefur hann. Ég stakk upp á þessu en ég hef ekki séð neitt vitnað í þetta, hvorki að það sé slæmt né gott. Það er ekkert gert með þetta. Menn flytja prófkjörið inn í kjörklefann sem ég tel mjög slæmt. Þá segi ég við einhvern sem ég ætla að fá til að kjósa listann minn: Heyrðu, kjóstu mig en ekki þennan af því að hann tekur sætið frá mér. Þetta finnst mér vanta illilega.

Svo fór ég í gegnum stjórnarskrána út frá vissum hlutum eins og mansali. Ég sé ekki að það sé beint bannað, ég sé það ekki. Það er talað um að öllum sé tryggður réttur til að lifa með reisn. Þýðir það að það sé ekkert mansal? Og hvað þýðir að lifa með reisn? Svona fór ég í gegnum allar þær tillögur sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir flytur sem breytingartillögu og það var eiginlega ekkert mið tekið af því.

Svo er athugasemdin um Lögréttu. Ég saknaði dálítið að hennar sé getið. Ef menn ætluðu að koma með eitthvert ákvæði sem enginn ágreiningur er um í staðinn fyrir auðlindaákvæðið væri það það að setja Hæstarétt inn í stjórnarskrána. Það er hvergi ákvæði um Hæstarétt og það finnst mér mikill galli við núverandi stjórnarskrá. Ef menn væru að leita að einhverju til sátta væri það leiðin.

Ég ætla að enda með því að taka undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni eins og ég byrjaði á. Menn þurfa að hafa miklu meiri samningslipurð og taka meira tillit til skoðana hver annars, virða þær og ræða þær og hafna þeim með rökum eða taka þær upp. Mér finnst ekki hægt að þetta gangi allt út á einhver slagsmál, að menn segi: Heyrðu, hringdu hérna eitt stykki stjórnarskrá og vertu sáttur. Eða menn segja: Hér er auðlindaákvæði sem okkur finnst ljómandi gott og þú skalt bara samþykkja það. Ef þú samþykkir það ekki samþykkjum við það bara með meiri hluta.

Mér finnst ekki nógu gott að það sé keyrt svona yfir minni hlutann á Alþingi. Maður sér það stundum í nefndum að það næst ágætisniðurstaða ef menn setjast niður faglega, fara í gegnum vandamálið sem um er að ræða og kryfja það. Það er miklu betra og það gerist þó nokkuð oft í nefndum og kemur náttúrlega hvergi fram. Það ætti að geta gerst í þinginu líka að menn spyrji: Heyrðu, hvað er það sem þú vilt og hvað er það sem þú gerir athugasemdir við? Ef viðkomandi segir það segir maður: Ég get ekki fallist á þetta. Ef hann segir: Ég er með athugasemd við þetta segir hinn: Við getum ekki fallist á þessa breytingu út af þessu og hinu — með rökum.

Þá væri þetta miklu betra og mér finnst virkilega dapurlegt ef niðurstaðan verður sú eftir að búið er að henda tundurskeytum og djúpsprengjum að tillögur formannanna falli niður og málið verði fyrst tekið upp í lok næsta kjörtímabils.