141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var fróðleg og prýðileg yfirlitsræða hjá hv. þingmanni yfir viðhorf hans og áherslur í stjórnarskrármálinu. Má taka undir fjölmargt sem þar kom fram, til dæmis það að umræðan eftir að hún fór loksins af stað, efnisleg umræða í dag og í gær, hafi verið alveg prýðileg, málefnaleg og ágæt umræða. Auðvitað á hún að vera það í stað pólitískra slagsmála um hvort, hvað og hvernig.

Segja má að menn hafi ýmislegt til síns máls um að heildarplaggið þurfi meiri umræðu. En í þeim tveimur ákvæðum sem hér eru flutt sérstaklega, breytingarákvæðinu og auðlindaákvæðinu, er að mínu mati ekkert því til fyrirstöðu að þau gangi til atkvæða og meiri hlutinn á Alþingi ráði því hvort þau gangi fram eða ekki. Þingmaðurinn flutti mjög góð rök fyrir því af hverju þarf að breyta breytingarákvæðinu, það skiptir mjög miklu máli. Ef því er ekki breytt stöndum við frammi fyrir því að hin mikla vinna, þetta langa og lýðræðislega og ágæta ferli, fari hugsanlega forgörðum. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að Alþingi sjái sóma sinn í því að ljúka þeirri umræðu og það ákvæði gangi til atkvæða, svo og auðlindaákvæðið. Það er núna eins og sjálfstæðismennirnir Björn Bjarnason og hv. þm. Birgir Ármannsson lögðu það fram árið 2009. Og af hverju ekki að greiða atkvæði um þessa tillögu?

Við höfum nú rætt nokkuð óslitið um auðlindaákvæðið í 13 ár og örugglega 30 ár þar á undan. Það hefur verið efnismikil og ágæt umræða og komnar nokkuð samhljóða tillögur og niðurstöður í þá umræðu. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, ekki síst með tilliti til hans eigin ágætu röksemda um að afgreiða þetta í hlutum, þá hluta sem eru tilbúnir hverju sinni, og þessir tveir eru það núna: Er nokkuð því til fyrirstöðu að þeir gangi til atkvæða núna þegar efnisumræðu hefur lokið um þá á nokkrum dögum í þinginu?