141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrra ákvæðið um breytingar á stjórnarskránni, þ.e. breytingu á 79. gr., ég er ekki sammála því að það sé útrætt. Ætla menn virkilega að hafa tvö ákvæði sem þingmenn geti valið úr hvort þeir vilja breyta þeim með þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er bindandi af því að þeir vænta þess að þjóðin eða kjósendur séu hrifnir af því, og hins vegar að þeir geti breytt þeim með tveimur þingum, þar sem þingin sjálf taka ákvörðun. Mér finnst það ekki nógu gott. Mér finnst ekki gott að menn hafi svona val. Þá mundu menn setja þau ákvæði sem gæta hagsmuna þingmanna einungis undir þingin og aðrar breytingar sem gæta hagsmuna kjósenda og menn búast við að sé vinsælar, þær verði settar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef ekki fengið rök fyrir því af hverju tvær aðferðir eigi að vera við að breyta stjórnarskrá og ég vil spyrja: Er það víða þannig?

Svo varðandi auðlindaákvæðið, það merkilega gerist ef þetta verður samþykkt þá fer það aldrei í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, aldrei, það er nefnilega eitt atriði. Ég vildi gjarnan að þetta væri hluti af því sem þjóðin greiddi atkvæði um. Og ef svona mikil sátt er um þetta og menn búnir að sjá fyrir sér að þetta komi í veg fyrir strandveiðar, komi í veg fyrir alls konar potta og komi í veg fyrir línuívilnun, ef menn eru búnir að átta sig á því og eru sammála þá er kannski allt í lagi að gera þetta eftir að búið er að breyta stjórnarskránni og eftir að búið er að kjósa, þá væri hægt að senda það til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu.

Ég er ekki viss um að þetta sé útrætt. Ég er ekki viss um að menn hafi þann sama skilning og ég, að það að veita skuli þetta á jafnræðisgrundvelli geri það að verkum að ekki má gera upp á milli Granda og einhvers karls sem er með línuívilnun og þeir skuli báðir borga jafnmikið fyrir auðlindina. Ég held að þetta hafi ekki verið rætt.