141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má auðvitað lengi rökræða um það hvenær eitthvað sé fullrætt, en við erum í umræðunni núna. Við höfum marga daga fram undan, og vikur þess vegna, til að ræða þetta alveg til enda þannig að lúkning komi í umræðuna og síðan tekur meiri hlutinn í þinginu ákvörðun um það hvort þetta verður samþykkt eða ekki.

Það stendur yfir ágæt efnisumræða núna. Hv. þingmaður flutti alveg prýðileg rök með tillögu formannanna, hann sagðist vera ánægður með hana og ég tek eindregið undir það að eins og staðan var orðin í málinu er það mjög skynsamleg tillaga og gerir að verkum að hægt er að halda áfram með þessa heildarendurskoðun og ljúka henni. Það skiptir nefnilega mjög miklu máli eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns að þjóðin sjálf greiði atkvæði að lokum um sína eigin stjórnarskrá með bindandi hætti, það verði ekki of víðfeðmt, kjósendur og þingmenn hafi yfirsýn yfir það o.s.frv. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að þetta klárist núna.

Þegar ég færði rök fyrir því að við værum að nálgast niðurstöðu í rökræðunni um auðlindaákvæðið þar sem ég benti hv. þingmanni á að breytingarákvæðinu hafi verið breytt þannig að það er eins og hv. þingmenn sjálfstæðismanna lögðu það fram fyrir fjórum árum og ég vitnaði í áðan, þá spurði ég hv. þingmann af hverju við mættum ekki fá að greiða atkvæði um þá tillögu. Umræður standa yfir um auðlindaákvæðið. Hugsanlega er hægt að komast að enn meiri sátt um orðanna hljóðan. Ég veit ekki betur en að opið samtal sé á milli formanna allra flokka um það.

Það skiptir miklu máli að klára þessi tvö ákvæði og mikill munur er á því að flytja tvær breytingartillögur stakar eða heilt plagg með 116 greinum. Því er ekki hægt að líkja saman út frá þingtæknilegum klækjabrögðum eins og voru sýnd hér af fulltrúa Hreyfingarinnar þar sem reynt var að keyra þetta mál í kaf þó að ég voni innilega að það takist ekki.