141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nefnilega akkúrat kjarni málsins að ekki er til nein ein endanleg og hárrétt útgáfa af þessu ákvæði frekar en öðru. Það verður alltaf niðurstaðan. Það verður alltaf samkomulag að lokum, málamiðlun auðvitað, þar sem meginmarkmiðunum er náð sem er kjarninn í öllum útgáfunum, öllum auðlindaákvæðunum. Það er eins og segir í upphafi þessa ákvæðis:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.

Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Þetta er kjarni málsins og útfærslu og orðalag á þessum kjarna geta menn auðvitað náð samstöðu um.

Eins og hefur komið fram í máli formanns Samfylkingarinnar þá teflum við að sjálfsögðu fram okkar auðlindaákvæði og svo reyna menn að ræða hvað þeir mega verða ásáttir um að verði niðurstaðan og ganga til atkvæða. Það er auðvitað samkomulagsatriði nákvæmlega um útfærsluna af því að hún er ekki til nein ein rétt og endanleg. Það blasir alveg við. Hins vegar er tillagan sem er nú flutt af þingmönnunum fjórum úr stjórnarflokkunum mjög góð, alveg prýðileg, mjög meitluð og unnin og þroskuð útgáfa af auðlindaákvæðinu sem ég styð heilshugar og vildi auðvitað að gengi svona fram en sé kjarninn sá sem ég las upp áðan, um ævarandi eign þjóðarinnar og aldrei megi selja, veðsetja o.s.frv., hljóta menn að geta náð saman um útfærsluna.

Ég fagna þeim sáttatóni sem var að finna í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar um að vitaskuld sé ekki útilokað að ná saman um þetta. Til þess er líka rökræðan hér í þingsal, til þess eru samtölin og fundirnir, til að ná saman af því að markmiðið er alveg skýrt og um það er prýðileg samstaða held ég, að auðlindaákvæði fari í stjórnarskrá. Útfærslu og orðalag getum við komist að samkomulagi um.