141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:08]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki rétt. Það er fullkomin samstaða í okkar hópi um það hvernig við viljum sjá auðlindaákvæðið, en formaður Samfylkingar hefur að sjálfsögðu svigrúm og umboð til að leita sátta í málinu. Ég tek nefnilega undir það sem hv. þingmaður sagði áðan. Mín skoðun er sú að þegar upp er staðið hafi allir flokkar á Alþingi og þeir sem ég hef tekið eftir að bjóða fram lýst sig reiðubúna til að vinna og útfæra og bæta í stjórnarskrána auðlindaákvæði. Ég held líka að kjarninn og inntakið í öllum þeim auðlindaákvæðum sem hafa verið skrifuð og sett fram sé eitt og hið sama þegar upp er staðið. Útfærsla og orðalag, að sjálfsögðu hafa menn sem eru núna að tala saman um niðurstöðu svigrúm til að hnika til orðum. Það er fullkomin samstaða í mínum hópi og engin ástæða til að ala á neinni tortryggni hvað það varðar.

Það var nefnilega hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna áðan en geri í svari mínu núna. Ég er sammála því að oft verður jafnmikilvæg umræða og umræða um auðlindaákvæði í stjórnarskrá pólitískum hráskinnaleik að bráð. Einhverjir telja sig hagnast á því að viðhalda þeirri skynjun og upplifun að einhverjir flokkar eða stjórnmálamenn vilji ekki út af óeðlilegum hagsmunum að slíkt ákvæði fari í stjórnarskrá. Ég held að við eigum að leggja þá tortryggnisumræðu til hliðar eins og kostur er af því að ég greini það mjög vel í ræðum og orðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hér voru í andsvörum við mig, hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, að töluverður vilji er til að ná niðurstöðu í þessu máli. Það er öllum til hagsbóta að gera það, Alþingi Íslendinga í heild sinni en auðvitað umfram allt íslensku þjóðinni að ná þeim tímamótaáfanga að samþykkja hérna auðlindaákvæði í stjórnarskrá.