141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla í rauninni að ítreka það sem ég sagði hérna áðan. Mér þykir vænt um að heyra það og skynja að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson er ekki í þeim pólitíska skollaleik að setja fram einhverjar klisjur um það hvað aðrir flokkar vilja eða vilja ekki eins og sumir hafa gert.

Eins og ég gat um áðan lagði fyrri formaður okkar í samvinnu við þáverandi formann Framsóknarflokksins fram tillögu um náttúruauðlindir Íslands. 1. mgr. 1. gr. er alveg skýr: „Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign.“ Mér finnst það segja ansi mikið um okkar vilja. Ég er sammála því að það þurfi að vinna þetta betur. Ég held að það sé ekkert langt á milli manna þannig að það sé ítrekað.

Mér finnst líka mikilvægt að það sé dregið hér fram af hálfu hv. þingmanns og líka upp á framhaldið að umboð formannsins sé ótvírætt. Ég fagna því sérstaklega. Ég skil alveg hans nálgun. Hann kemur að málinu, það er komið í algjört öngstræti og hann er í rauninni að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Þannig er það. Hann reynir, hvort sem menn tala um af veikum mætti eða ekki, að setja málið í annan farveg. Það er virðingarvert í sjálfu sér. Ég er ekki endilega sammála þeirri nálgun, kem að því í ræðu minni á eftir, en ég er sammála því að við eigum að ræða um breytingarákvæðið og nýta til þess tímann.

Þá er ég komin að þeirri efnislegu spurningu varðandi breytingarákvæðið sem slíkt. Finnst hv. þingmanni það ekki skjóta skökku við að í tillögu frá formönnum stjórnarflokkanna er þess krafist að eftir breytingu þurfi 2/3 hlutar Alþingis að samþykkja breytingar en núna er að vissu leyti verið að knýja fram samþykki á breytingartillögu með naumum meiri hluta þingsins? (Forseti hringir.) Er það ekki einfaldlega siðferðislega röng nálgun að krefjast þess að á nýju þingi þurfi 2/3 hlutar Alþingis samkvæmt breytingunum að samþykkja stjórnarskrárbreytingar en í dag er verið að knýja fram breytingar á breytingarákvæði með (Forseti hringir.) naumum meiri hluta?