141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:13]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er akkúrat kjarni málsins að við erum ekki að reyna að knýja eitt eða neitt fram. Við erum að reyna að ræða okkur hér til niðurstöðu þannig að það megi verða mjög breið samstaða um það á Alþingi þegar við göngum til atkvæða um þessi tvö ákvæði, breytingarákvæðið og auðlindaákvæðið. Að sjálfsögðu skiptir mjög miklu máli að það verði ágæt og sem allra breiðust samstaða um þau.

Hvað varðar hitt er ég bjartsýnn á það með tilliti til þeirra orða sem hér hafa fallið og þeirrar yfirvegunar sem er í umræðunni í dag og var seinni partinn í gær, eftir að við hófum umræðuna, að við munum ná niðurstöðu og ágætu samkomulagi um lendingu í málinu. Það er nefnilega eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði ekki langt á milli manna og flokka og til að taka af öll tvímæli um það hefur formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, ótvírætt umboð til að ná niðurstöðu í þessu máli. Ég styð mjög eindregið þær sáttaumleitanir og þá vegferð sem hann fór í. Vissulega var það umdeilt, það er allt umdeilt og orkar tvímælis þá gert er í jafnstórbrotnu og stórkostlegu máli og stjórnarskrármálinu. Ég ber mikla virðingu fyrir viðhorfum þeirra sem bundu við það vonir að við næðum að fara með málið allt alla leið en þegar ljóst varð að það var ekki að takast þá skipti mestu máli að greidd yrðu atkvæði um þau ákvæði sem eru tilbúin, mikilvægust og mestur stuðningur er við, auðlindaákvæðið og breytingarákvæðið, og samþykkt yrði þingsályktunartillaga sem tryggir endanlega lúkningu á þessari vinnu, heildarendurskoðun á stjórnarskránni sem hefur miðað mjög vel áfram. Við sjáum svo sannarlega í umræðunni núna hvað við höfum náð miklum árangri í þessu ferli öllu. Ég ítreka að ég held að allir flokkar og allir sem tala fyrir þessu núna nálgist í raun og veru málið út frá sama kjarna í auðlindaákvæðinu burt séð (Forseti hringir.) frá orðalagi og útfærslu og um hana munum við ná samstöðu.