141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Það eru í raun mörg mál undir í dag í þessari umræðu. Við erum að ræða frumvarp til breytinga á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar og það hafa komið fram breytingartillögur bæði frá þingflokksformanni Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fleiri flutningsmönnum um viðbótarákvæði um náttúruauðlindir og síðan tillaga Margrétar Tryggvadóttur, sem er breyting á stjórnarskránni í heild sinni. Mér sýnist ekki vera sameiginleg umræða um þingsályktunina og frumvarpið en ég lít svo á að einnig sé undir þingsályktun um að áframhaldandi umræða um breytingar á stjórnarskrá verði sett í ákveðinn farveg fyrir næsta þing.

Frú forseti. Ég ætla að ræða um frumvarpið sem formenn stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson lögðu fram, enda stóð ég að afgreiðslu þess út úr nefnd. Ég ætla að ræða um breytingartillögu sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir er 1. flm. að. Efnislega ætla ég ekki að ræða breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur en mun þó eðli málsins samkvæmt koma inn á það mál. Ég vil byrja á því að segja að flokksbróðir minn, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, fór mjög ítarlega yfir breytingartillöguna um náttúruauðlindir og ég er mjög sammála því sem kom fram í máli hans.

Frú forseti. Nú var það svo að í síðastliðinni viku vorum við báðar staddar á ráðstefnu fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum þar sem forseti Íslands ávarpaði samkomuna. Ávarp forseta Íslands var hið besta og þar sagði hann hlut sem var ákaflega fallegur. Hann talaði um lýðræði og sagði að lýðræði væri búningur til að þjóna vilja fólksins. Mér fannst það einstaklega fallega orðað hjá herra Ólafi Ragnari Grímssyni og mér verður það stundum hugleikið þegar við ræðum stjórnarskrána á Alþingi að við settum breytingar á stjórnarskrá í hendurnar á fólkinu í landinu. Fólkið í landinu, kjósendur, hafa veitt okkur umboð til að fara með löggjafarvaldið.

Til margra ára hefur reynst erfitt að ná fram ákveðnum breytingum á stjórnarskránni og það voru að minnsta kosti fjórir flokkar sem vildu koma á stjórnlagaþingi fyrir síðustu kosningar. Eftir japl, jaml og fuður tókst það en síðan var kosningin úrskurðuð ógild. Ég taldi í þessum ræðustól að nokkuð væri hægt að treysta 83 þúsund manns sem tilnefna í nefnd, þeim tilnefningaraðilum, þannig að ég studdi að þessir 25 aðilar yrðu í stjórnlagaráði. Það er búið að segja þá sögu oft en ég ætla samt að segja hana því að allt of oft er gert lítið úr henni. Frá henni kom frumvarp sem var unnið í opnu ferli, við skulum ekki gleyma því að það var of stutt vegna málamiðlunar við Sjálfstæðisflokkinn, upphaflega átti þingið að vera lengra. Síðan kemur frumvarp til forseta þingsins, hún lætur það í hendurnar á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fjallar um málið í heilan vetur og fær umsagnir og gesti.

Ákveðið er að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það ríkti ekki sátt um það í þinginu og hér varð gríðarlega löng umræða, ég vil leyfa mér að kalla hana málþóf, sem olli því að ekki var hægt að leggja frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum heldur var það gert 20. október síðastliðinn. Það var afgerandi niðurstaða í þeim kosningum og okkur var falið að þjóna vilja fólksins með því að gera það sem stjórnlagaráð skrifaði eða að útbúa nýja stjórnarskrá á grundvelli þess frumvarps. Við í stjórnarmeirihlutanum höfum tekið það hlutverk alvarlega og ég er mjög stolt af mínum flokki fyrir það, enda er sjálfsagður og eðlilegur hlutur að fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frú forseti. Það hefur ekki verið mikill samstarfsvilji á þinginu eftir þá þjóðaratkvæðagreiðslu við að koma málinu í búning, það hefur ekki verið þverpólitísk samstaða og ég ætla ekki að dæma hverju er um að kenna. Ég get því að mörgu leyti dáðst að því frumkvæði Margrétar Tryggvadóttur að bera uppi þessa breytingartillögu en ég er líka sammála þeirri afstöðu að það sé erfitt að samþykkja breytingu á stjórnarskrá án aðkomu allra flokka í þinginu. Ég er ekki endilega að tala um að allir eigi að vera sammála. Ég ætla að skýra mál mitt betur.

Ég ætla núna að ræða frumvarp hv. þm. Árna Páls Árnasonar og fleiri formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Því var breytt þó nokkuð í nefndinni og niðurstaðan varð sú að 2/3 hluta atkvæða þyrfti til breytinga á stjórnarskrá á Alþingi en til þess að frumvarpið teldist samþykkt þyrfti það að hljóta meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst atkvæði 25% af hundraði allra kosningarbærra manna. Það var talið að 3/5 hlutar eða 60% þingmanna væri of lágt hlutfall og kom það fram í ýmsum athugasemdum og var ákveðið að verða við því. Í raun er gott að hafa í huga að báðar leiðirnar eru opnar, ef frumvarpið verður að lögum verða tveir möguleikar á breytingum á stjórnarskránni og ég held að það kunni að vera gott að mörgu leyti. Það er þannig að í miklum átakamálum getur naumur meiri hluti knúið í gegn breytingar á stjórnarskrá en þá þarf sá meiri hluti að hljóta endurnýjaðan meiri hluta í alþingiskosningum til þess að geta breytt stjórnarskránni, rétt eins og við höfum það í dag.

Ef breið sátt er á þinginu um breytingar á stjórnarskrá, ef 2/3 alþingismanna koma sér saman, er þó sá ventill á að ef þingið er að gera eitthvað sem er kannski ekki nógu gott hefur þjóðin tækifæri til að blanda sér í málið. Ég stóð að afgreiðslu þeirrar tillögu en ég er ósátt við og er með fyrirvara við að það sé þröskuldur, að 25% atkvæðabærra manna þurfi að segja já. Ég tel að ekki eigi að hafa þátttökuþröskulda í þjóðaratkvæðagreiðslu, það er ólýðræðislegt þó að skárra sé að hafa hann með því móti en að gera ráð fyrir að að minnsta kosti þurfi 50% þátttöku eða eitthvað slíkt.

Ég ætla að taka dæmi af því að fólki finnst ekki hljóma mikið að 25% kosningabærra manna segi já. Við fórum í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október og svöruðum sex spurningum og í spurningunni um hvort kjósendur vildu að þjóðkirkjunnar væri getið í stjórnarskrá kom fram meirihlutavilji fyrir því að svo yrði áfram. Á kjörskrá voru 236.903. 58.354 sögðu já en það er 24,6% sem þýðir að þetta hefði ekki verið samþykkt þó að meiri hluti kjósenda sem tóku afstöðu til spurningarinnar hafi sagt já, hafi jafnvel mætt á kjörstað af því að það skipti þá sérstaklega máli. Mér fyndist rangt að segja að ekki sé skýrt hver vilji kjósenda er. Það eru skiptar skoðanir og þær voru einna mest skiptar í þeirri spurningu en það er augljós meiri hluti fyrir því af hálfu kjósenda að þjóðkirkjan sé í stjórnarskrá. Þetta var til að færa rök fyrir því af hverju ég er á móti þröskuldum því að ég tel að við eigum að virða þann vilja sem fram kemur í þjóðaratkvæðagreiðslu og virða þá sem ákveða að nýta lýðræðislegan rétt sinn og mæta á kjörstað óháð því hvað einhverjir aðrir kunna að velja að gera.

Frú forseti. Áður en ég yfirgef breytingartillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vil ég segja að ég styð að sjálfsögðu þetta frumvarp en ég tel, sérstaklega í ljósi þess að þarna er um tvær ólíkar aðferðir að ræða — og þess má vænta að þegar þjóðin gengur til kosninga og svo víðtæk samstaða er á Alþingi að nokkuð víðtæk sátt sé um það í samfélaginu en þá er líka eins gott að fólk mæti á kjörstað, en það verða áfram fleiri leiðir til að breyta stjórnarskrá.

Ég held að ástæðan fyrir því að frumvarpið er lagt fram sé að sjálfsögðu sú að fyrir liggur að ekki mun takast að klára endurskoðun stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili og að vilji sé til að geta gert það án þess að þurfi koma til alþingiskosninga í millitíðinni og að sjálfsögðu eiga kjósendur að eiga möguleika á því að koma að breytingum á stjórnarskrá.

Þá kemur að breytingartillögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur og fleiri flutningsmanna. Ég verð að segja að ég er einstaklega ánægð með að sú breytingartillaga hafi komið fram því að ég er mikil stuðningskona frumvarps stjórnlagaráðs. Að mínu viti eru róttækustu tillögurnar sem ég tel að muni hafa mest áhrif þrjár. Sú fyrsta varðar jafnt vægi atkvæða og ég ætla ekkert að fara í löngu máli yfir hvaða áhrif það hefði á störf þingsins eða ákvarðanir þingsins ef þingmenn væru með jafnt atkvæðavægi að baki og fulltrúar af höfuðborgarsvæðinu ættu fleiri fulltrúa hér inni og persónukjörið er inni í því. Í öðru lagi tel ég að þjóðareign á auðlindum sé eitt af mikilvægustu ákvæðunum í nýju frumvarpi. Í þriðja lagi er það beina lýðræðið eða það að kjósendum gefist aukinn kostur á að segja sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá þrjár breytingartillögur en við í Samfylkingunni töldum að þarna væri dregin lína í sandinn. Þetta væri að lágmarki það sem yrði að nást fram á þessu þingi og af hverju? Af því að þetta ákvæði hefur verið til umræðu í þinginu árum saman, allir flokkar hafa lýst því yfir að þeir séu fylgjandi því og 83% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni í október vilja ákvæðið inn. Af hverju skiptir ákvæðið máli? Ákvæðið kveður á um ævarandi eign þjóðarinnar á þeim auðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti. Hún kveður á um að óheimilt sé að framselja auðlindirnar beint eða óbeint með varanlegum hætti. Hún kveður á um nýtingu auðlinda sem skuli hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi og að það skuli eingöngu veitt leyfi til nýtingar tímabundið og gegn eðlilegu gjaldi.

Sú breyting varðar það grundvallarréttlæti, við erum auðlindarík þjóð, að við tryggjum að arðurinn af auðlindunum gagnist öllum. Í ræðustól á undan mér var farið mörgum orðum um hvað það væri mikil eindrægni og vilji til að breyta þessu og allir hafa lýst því yfir en það virðist nánast vera ógerningur að gera það þrátt fyrir allt. Ég ætla að leyfa mér að vera svolítið dramatísk, frú forseti, og segja að siðbót í stjórnmálum náist ekki fram ef flokkar ætla æ ofan í æ að svíkja kosningaloforðin sín. Það er kannski ágætt að líta til þess hvað flokkarnir hafa sagt um breytingar á stjórnarskrá og viljann til að knýja hann fram þegar kosningaloforð þeirra verða skoðuð fyrir næstu kosningar, að það fari til dæmis ekki með leiðréttingu skulda eins og með stjórnarskrárbreytingar og hvað það þýðir þegar lækkun skatta er lofað. Við lofum ekki lækkun skatta en við viljum auka arð þjóðarinnar, beinan arð þjóðarinnar í skatttekjum af auðlindanotkun í landinu sem getur til lengri tíma valdið því að tekjuskattur á einstaklinga lækkar án þess að það komi niður á tilfærslukerfunum okkar á samneyslunni, þ.e. þjónustu hins opinbera.

Frú forseti. Ég vil segja að lokum að ég tel þetta þing vart geta farið heim nema hafa breytt því auðlindaákvæði sem hefur verið undir í pólitískri umræðu til lengri, lengri tíma. Ég vil að lokum hvetja þingheim til að fara í þann búning sem er líklegur til að þjóna vilja fólksins.