141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil byrja á því að segja varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB að það er náttúrlega fullljóst að ekki getur orðið samþykkt um aðild að Evrópusambandinu nema með breytingum á stjórnarskrá og fullveldisframsali, ákvæði um fullveldisframsal í henni. Það hefur líka margoft komið fram að sú spurning verður lögð í hendur þjóðarinnar, (Gripið fram í.) kjósenda, en jafnframt verður búið að gera þær breytingar á stjórnarskrá að sú niðurstaða verður bindandi. (BirgJ: Skoðanakönnunum.) Verði það ekki svo er það í höndum forseta Íslands, hver sem það kann að vera á þeim tíma, hann hefur neyðarventilinn en það mundi ég ekki vilja sjá og ég held að í rauninni vilji enginn hér inni sjá það. Hv. þingmaður talar um skoðanakönnun en ég er ekki sammála, þetta var þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún er ekki bindandi en það er mjög hættulegt fyrir Alþingi að ætla að segja að af því að hún er ekki bindandi lögum samkvæmt þurfi ekki að fara að henni því að þá er verið að svíkja kjósendur gríðarlega alvarlega.

Niðurstöður þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram 20. október eru jafn stefnumótandi fyrir Alþingi í mars 2013 og þær eiga að vera í maí 2013. Alþingiskosningar núna í apríl breyta engu um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Alþingi er búið að fá leiðsögn og þarf að fara að henni, óháð því hvort hér verða alþingiskosningar eða ekki.