141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún gerði grein fyrir þeim fyrirvara sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og snýr að þeim þröskuldi sem er í þjóðaratkvæðagreiðslunni ef nýja breytingarákvæðið verður nýtt, þessi nýja 80. gr. Einni nýrri grein verður bætt við þannig að tveir möguleikar verða til að breyta stjórnarskránni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í það. Ég gat mér þess til í ræðu minni fyrir hádegi að það væri kannski vegna þess að ef menn færu þá leið að það þyrfti 2/3 hluta greiddra atkvæða á Alþingi væri málið í mikilli sátt í þinginu sem kallaði ekki endilega á mikla þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Mig langar að spyrja hvort það sé hugsanlega ein af þeim athugasemdum sem hv. þingmaður hefur við þá hluti. Hv. þingmaður kom inn á auðlindaákvæðið í ræðu sinni, mikilvægi þess, og ég get verið sammála henni um það. Það kom til að mynda fram í andsvari hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að hún telur fleiri mikilvæg ákvæði þurfa að koma til viðbótar, helst náttúrlega öll stjórnarskráin eða tillögurnar sem liggja fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi þá breytingartillögu sem kemur með frumvarpi formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Það má ekki skilja mig þannig að ég sé að gera lítið úr tillögurétti hv. þingmanna en það slær mann dálítið að breytingartillaga komi við frumvarpið og sérstaklega í ljósi þess að tillagan kemur fram eftir að starfsáætlun þingsins lýkur. Ég hef áhyggjur af því, og viðurkenni það fúslega og gerði í ræðu minni áðan, að það setji málið í ákveðið uppnám. Ég er ekki að fullyrða að það sé rétt hjá mér en hef ákveðnar áhyggjur af því og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi áhyggjur af því að það geti gerst.