141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni þegar hann talar um að ef það er breið sátt, 2/3 hlutar þingmanna, geti verið ákveðin hætta á lélegri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu því að oft er það sterk skoðun fólks á einhverju sem dregur það á kjörstað utan þess sem við erum vön í alþingiskosningum og sveitarstjórnarkosningum. Þess vegna var ég með fyrirvara við að verið væri að setja ákveðinn þátttökuþröskuld, ég held að það sé óþarfi. Við erum að búa til tvær leiðir til að breyta stjórnarskránni og ég er í raun á því að það geti verið mjög sniðugt, þá er hægt að gera breytingar á stjórnarskrá þótt það séu átök. Við skulum muna að á tímabilinu 1874–1918 voru nánast stöðug átök um stjórnarskrána og stóru kjördæmabreytingarnar 1959 voru gerðar í miklum átökum þannig að það er lygi, skröksaga, að alltaf hafi verið sátt um stjórnarskrárbreytingar á Íslandi. Því er fínt að eiga tvær mismunandi leiðir, án þess að gefinn sé afsláttur og sérstaklega auðvelt sé að breyta er tryggt að minni hlutinn geti ekki stöðugt kúgað meiri hlutann í stjórnarskrármálum.

Varðandi breytingarákvæðið sé ég ekki að það ætti að hleypa málinu í uppnám. Forustumenn bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa ítrekað lýst yfir vilja flokka sinna til að breyta því ákvæði. Það er yfirgnæfandi stuðningur kjósenda við breytingu, að fá svona ákvæði inn í stjórnarskrá, og ég tel það í raun og veru svo fullkomlega tímabært að fráleitt væri að ljúka ekki þeim þætti stjórnarskrárinnar núna.