141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni að ekki hefði myndast víðtæk sátt í þinginu um úrvinnslu tillagna stjórnlagaráðs. Ég sagðist ekkert ætla að dæma hverju væri um að kenna en ég veit að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vann í málinu af fullum krafti, af fullri trúmennsku og gerði allt sem í hennar valdi stóð til að hægt væri að ljúka því. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa sýnt málinu mjög takmarkaðan áhuga. Ég er þó ekki að væna fólk um takmarkaðan áhuga á stjórnarskrárbreytingum en það virtist vera takmarkaður áhugi til samstarfs.

Ég var ekki innsti koppur í búri í þeim samskiptum og ætla ekki að setjast í dómarasæti og dæma hverju er um að kenna. Reynt var að vinna úr þröngri stöðu og formenn stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson komu fram með tillögu að breytingarákvæði á stjórnarskránni. Þetta er fullkomið lágmark. Lögð er fram óbreytt tillaga úr stjórnlagaráði og síðan er farið að skoða málið betur af ýmsum ástæðum og úr því að ekki var verið að samþykkja frumvarpið í heild sinni var talið betra að gera ákveðna breytingu á ákvæðinu. Það var gerð breyting sem er samhljóða tillögum frá meðal annars sjálfstæðismönnum en engu að síður sýndu þeir ekki vilja til að standa með okkur að þessari afgreiðslu. Þá liggur fyrir að við getum með engu móti treyst því að raunverulegur vilji sé til sátta og því teljum við það ákvæði algjört lágmark til lúkningar á þessu þingi.