141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ef við höldum aðeins áfram umræðunni í sambandi við breytingartillöguna sem snýr að þessu nýja auðlindaákvæði í stjórnarskránni kemur fram að búið er að breyta þeirri tillögu sem lá út úr stjórnlagaráðstillögunum og var í meðförum hjá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd framan af. Þar kom fram að stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda sem og annarra takmarkaðra almannagæða gegn fullu gjaldi. Því var breytt í meðförum meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í eðlilegt gjald, bara því einu, fullt gjald varð eðlilegt gjald.

Þess vegna tek ég undir það með hv. þingmanni að auðvitað er mikilvægt að skoða nánast hvert orð fyrir sig. Það kom til dæmis í ljós að ef haft hefði verið fullt gjald, ef það hefði staðið í ákvæðinu í stjórnarskránni, hefðu til að mynda strandveiðar, byggðakvótar, alls konar ívilnanir sem eru í kerfunum, ekki gengið upp vegna þess að þær eru með afslátt á þeim gjöldum sem aðrir borga. Mikilvægt er að menn fari yfir þá hluti af mjög mikilli nákvæmni. Þess vegna finnst mér dálítið ódýrt af hálfu stjórnarliða að koma núna með breytingartillögu við frumvarpið sem snýr eingöngu að breytingum á stjórnarskránni, á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar, og þá segja menn að þetta sé að lágmarki það sem þeir vilja gera.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum hefði ekki fundist eðlilegra að hafa bara auðlindaákvæðið í frumvarpi formanna stjórnarflokkanna ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Hefði það ekki átt að koma fram þar strax frekar en að koma frá þeim núna í breytingartillögu við málið frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna?