141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég hef ekki rætt um þingsályktunartillöguna enda er hún ekki á dagskrá. Við ræðum fyrst þessa breytingu frá formönnunum.

Eins og ég gat mjög nákvæmlega um þá er spurning að finna þennan þröskuld. Mér finnst 25% vera of lágt. Ég geri ráð fyrir að mjög margir séu á því að þá verði of auðvelt að breyta stjórnarskránni, það verði hreinlega of auðvelt. Auðvitað nýtist það mínum flokki best því að hann hefur mest tækifæri og tæki til þess að ná fram kosningu um ákveðið mál sem aðrir flokkar hafa ekki þannig að aðrir flokkar ættu í rauninni að hafa efasemdir um að þetta sé of lágt. Ég sagði að 50% væri eflaust of hátt. Einhvers staðar þarna á milli ætti að vera punktur sem menn gætu sæst á. Svo hafði ég miklar efasemdir um að tvö ákvæði væru í stjórnarskránni sem menn gætu valið um til að breyta henni. Ég vara eindregið við því að menn geti farið þá leið. Ég ætla að vona að menn sjái að sér og þetta verði bara breyting á 79. gr. og ekki neitt annað, hún verði svona og menn hafi hugrekki til þess að taka málið til enda. Þá væru menn eiginlega komnir með tillögu mína sem ég flutti á sínum tíma og hef flutt í tvígang þannig að því sé haldið til haga hvar höfundarrétturinn liggur.