141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, halda ber því til haga að hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt fram tillögu þess efnis að breyta bara breytingarákvæði stjórnarskrárinnar til þess að opna á þann möguleika að hægt verði að fylgja málinu eftir á næsta kjörtímabili og honum ber að þakka þá vinnu sem hann hefur lagt í málið og að vekja máls á þessari leið.

Þar sem ég er nú framsögumaður þessa álits og þar sem nefndin opnar á þann möguleika að tvö breytingarákvæði séu á stjórnarskránni er hugsunin sú hjá meiri hluta nefndarinnar að hafa tvo möguleika sökum þess að deildar meiningar eru í raun og sann um hvor leiðin sé auðveldari, ef svo mætti segja. Er auðveldara að breyta stjórnarskrá með einföldum meiri hluta á tveimur þingum eða er auðveldari leið að breyta stjórnarskrá með 2/3 hluta þingmanna á einu þingi og svo þjóðaratkvæðagreiðslu með ákveðnum samþykkisþröskuldi? Það er álitamál hvort er auðveldara að mati þeirra fræðimanna sem komu á fund nefndarinnar. Við getum tekið sem dæmi að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hér ríkti um 12 ára skeið hefði þá þrisvar sinnum getað breytt stjórnarskrá án aðkomu annarra flokka. Það var ekki gert. Leitað var samráðs, sem er vel, en sá möguleiki var til staðar. Ef við túlkum það þannig væri auðvelt að breyta stjórnarskránni með þeim hætti, eða er kannski auðvelt að opna þann möguleika að 2/3 hlutar þings — já, breið samstaða — geti breytt stjórnarskránni og að þjóðin geti í sjálfstæðri atkvæðagreiðslu í þjóðaratkvæðagreiðslu komið beint að málinu og tekið afstöðu til endurskoðunar stjórnarskrár? Það er hugsunin á bak við það að hafa tvö breytingarákvæði opin og því vil ég halda í þann möguleika og sjá hvort við getum náð um það sátt, að minnsta kosti er ég fremur fylgjandi því en að ákveða annað hvort breytingarákvæðið hér og nú vegna þess að það getur farið svo að stuðningur sé við það á einu þingi að breyta stjórnarskrá en leita svo til þjóðarinnar.