141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans svar og ég verð að segja að ég er sammála honum. En það leiðir þá hugann að því hvort við eigum að opna fyrir þann möguleika að breyta stjórnarskrá og hvernig við gerum það. Eigum við að reyna að leita leiða til að breyta stjórnarskrá á næsta kjörtímabili, t.d. vegna aðkallandi spurningar hvað snertir aðild að Evrópusambandinu?

En þingmaðurinn ræddi í ræðu sinni nokkuð um þetta breytingarákvæði og þá tillögu nefndarinnar að opna fyrir aðra leið til að breyta stjórnarskrá. Hugmyndin leit öðruvísi út er hún kom frá flutningsmönnum frumvarpsins en nefndin ákvað, í leit sinni að sátt, í leit sinni að málamiðlun, til að rétta út sáttarhönd í enn frekari mæli en áður var gert, að taka upp hugmynd sjálfstæðismanna frá árinu 2009 — einn af flutningsmönnum hennar var hv. þm. Birgir Ármannsson — sem leið til sátta, til að koma til móts við þau sjónarmið sem þingmaðurinn hefur áður rakið úr þessum ræðustól.

Þingmaðurinn hefur hins vegar lýst því yfir að honum hugnist sú leið ekki lengur og það voru vonbrigði svo að ég segi það skýrt og klárt sem framsögumaður málsins. Ég vona svo innilega að þingmaðurinn sé ekki að stunda nein klækjastjórnmál með þeim sinnaskiptum sínum, ekki megum við við öðru tundurskeyti í þessa umræðu. Ég vil ítreka þann vilja minn að reyna með einhverjum hætti að koma til móts við ólík sjónarmið hvað snertir breytingu á stjórnarskrá Íslands þannig að við getum fundið leið til að breyta henni á næsta kjörtímabili. Þess vegna held ég að það sé klókt af okkur að hafa tvær leiðir opnar því að takist okkur ekki að ná mjög víðtækri sátt á Alþingi þá er hin leiðin alltaf til staðar, að einfaldur meiri hluti geti þá ráðið málum. Hins vegar er það mín skoðun að hið nýja ákvæði sé mun betra enda er skilyrði þar um að leita þurfi til þjóðarinnar strax með breytingu á stjórnarskrá.