141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

tekjuskattur.

670. mál
[20:06]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi sem flutt er af hv. efnahags- og viðskiptanefnd um undanþágur frá greiðslu afdráttarskatts af vaxtatekjum úr landi. Sá háttur var tekinn upp árið 2009 að leggja sérstakan afdráttarskatt á þær vaxtagreiðslur sem fara úr landi, enda var talið eðlilegt að þeir sem taka héðan vaxtatekjur til annarra landa legðu af mörkum til sameiginlegra verkefna hér eins og þeir sem hafa fjármagnstekjur á Íslandi.

Nokkrir annmarkar voru á þeirri skattframkvæmd og var lögð á það áhersla við gerð kjarasamninga að fallið yrði frá þessari skattheimtu. Hafa í tvígang komið fram stjórnarfrumvörp þess efnis. Hefur efnahags- og viðskiptanefnd og Alþingi sjálft í bæði skiptin haft frumkvæði að því að breyta þeim fyrirætlunum, í fyrra skiptið með því að lækka prósentuna á skattinum en halda honum allt það ár í stað þess að fella skattinn niður á miðju ári, og í seinna skiptið, þegar lagt var til fyrr í vetur að falla frá afdráttarskatti á yfirstandandi ári, lagðist efnahags- og viðskiptanefnd gegn þeim fyrirætlunum og lagði þess í stað til að fallið yrði frá hækkunum á bensín, á bifreiðagjöld, á útvarpsgjald, á léttvín og bjór og ýmsum öðrum verðlagshækkunum sem hefðu haft umtalsverð áhrif á vísitöluna um áramótin, upp á um það bil hálfan annan milljarð kr. samtals. Það var því hægt að hætta við þær gjaldahækkanir á almenning sökum þessa.

Sjónarmiðið var það að meðan svo mikið af fé er hér í landinu á vegum erlendra aðila og vaxtaberandi eignir sem verið er að flytja úr landi sé eftir sem áður eðlilegt að menn greiði skatta af þeim tekjum sínum eins og landsmenn sjálfir þurfa að gera. Það kæmi út af fyrir sig til álita að sú prósenta væri ekki 10% heldur 20% eins og fjármagnstekjuskatturinn sem Íslendingar greiða og skilaði skatturinn þá tvöfalt meiru fyrir vikið.

Annmarkinn sem hefur verið á framkvæmdinni hefur fyrst og fremst lotið að því að hún hefur gert erfiðara fyrir um fjármögnun stórframkvæmda og endurfjármögnun íslensku viðskiptabankanna. Þess vegna er þetta frumvarp flutt af nefndinni í því skyni að efna fyrirheit hennar um að greiða leið stórfjárfestingum í orkuiðnaði og sömuleiðis endurfjármögnun viðskiptabankanna beint á erlendum mörkuðum. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægur hluti af efnahagsendurreisninni að greiða því leið að fyrirtæki eins og Landsvirkjun og viðskiptabankarnir fái fjármagnað sig erlendis sjálf og beint með sem hagkvæmustum hætti. Það er þess vegna rík þjóðhagsleg nauðsyn sem kallar á að þessar ívilnanir séu gefnar fyrir þessi tilteknu fyrirtæki.

Ég held að hér sé að mestu mætt þeirri gagnrýni sem hefur verið uppi á skattinn, m.a. að hluti af tekjum ríkissjóðs færi í sjálfu sér í að greiða aukinn kostnað Landsvirkjunar vegna þessa. Með þessu fyrirkomulagi og kannski eilítið meiri þróun á skattframkvæmdinni mætir frumvarpið einnig sjónarmiðum sem uppi eru um að eðlilegt sé að þeir sem hafa vaxtatekjur hér á landi greiði vexti af þeim tekjum enda séu þeir ekki innan tvísköttunarsamninga. Einnig eru rök til að hafa slíka skattheimtu með svipuðum hætti og Danir hafa sína skattheimtu í því að varna skattsniðgöngu, þ.e. að koma í veg fyrir að menn geti sent eigin félögum hér í rekstri á Íslandi vaxtareikninga erlendis frá og flutt óskattaðar rekstrartekjur og hagnað þannig úr landi.

Afdráttarskattur er til dæmis viðhafður í Bretlandi en þar eru nokkrir aðilar undanþegnir honum. Það varnar því ekki að Bretland er ein helsta fjármálamiðstöð veraldarinnar þannig að það virðist ekki vera of flókið fyrir City of London að hafa afdráttarskatt sem hluta af skattkerfi sínu til að koma í veg fyrir skattsniðgöngu og tryggja að allir leggi af mörkum. Þá virðist það ekki varna fjárfestingu almennt í Bretlandi. Það ættu þess vegna ekki að vera nein sérstök rök til þess að við Íslendingar ættum alfarið að falla frá þessari skattheimtu, en sem rök fyrir henni eru kannski annars vegar þau sjónarmið að það sé eðlilegt að svokallaðir krónueigendur hér sem hafa umtalsverðar vaxtatekjur sem eru fluttar úr landi, við þær erfiðu aðstæður sem hér eru, beri skatt eins og aðrir, og hins vegar að koma í veg fyrir að íslenskir aðilar geti með einhvers konar leppfélögum erlendis flutt hagnað sinn í formi vaxta úr landi óskattaða og komist þannig hjá því að greiða í sameiginlega sjóði en flutt féð á reikninga erlendis.