141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

sameining rannsóknarnefnda í rannsóknarnefnd samgönguslysa.

609. mál
[20:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp sem er afleiðing af frumvarpi sem var samþykkt um sameiningu rannsóknarnefnda í rannsóknarnefnd samgönguslysa. Það má eiginlega segja að þetta sé einhvers konar bandormur sem felur í sér breytingar á ýmsum lögum og lagabálkum sem nauðsynlegar eru í kjölfar þess að fyrra frumvarpið var samþykkt. Þetta er afleiðingin af því og hér er í raun verið klára það mál, þ.e. sameiningu rannsóknarnefnda flugslysa, umferðarslysa og sjóslysa í eina nefnd.

Ég hef gagnrýnt þetta mál mjög mikið. Það hefur komið til meðferðar þingsins þrisvar á þessu kjörtímabili og nú er það að klárast. Ég hef alla tíð lýst mikilli andstöðu við það og get ekki sleppt því að halda eins konar kveðjuræðu fyrst málið er að klárast.

Það sem er merkilegt við þetta mál er að ekki hefur verið farið eftir þeim athugasemdum og ábendingum sem hafa borist frá þeim fagaðilum sem um þessi mál fjalla og best til þekkja. Í raun og veru hef ég miklar áhyggjur af því að markmið laganna, þ.e. markmið laganna sem hér er verið að klára, um að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir, nái ekki fram að ganga.

Það getur ekki verið að einhverjar pólitískar deilur séu um að efla eigi slysarannsóknir með það að markmiði að fækka slysum. Það er að sjálfsögðu ekki svo. Þegar þetta mál kom fyrst inn í þingið var gert ráð fyrir að hagræðing yrði af þessari sameiningu. Ég tel að það hafi verið einn liður í því að ná þeim hagræðingarkröfum sem gerðar voru til samgönguráðuneytisins á þeim tíma í ríkisfjármálastefnunni, en þá var ekki búið að sameina það við innanríkisráðuneytið. Síðan hefur málið breyst töluvert að því leyti að ekki er lengur reiknað með að hagræðing verði í rekstrinum og sparnaður. Það var heldur aldrei hægt að sýna fram á það. Ég kallaði margítrekað eftir því í umræðunni að fá að sjá þau gögn sem sýndu fram á sparnað af þessum breytingum, þau komu aldrei. Síðan er málið núna í þeim búningi að það verður útgjaldaaukning, útgjöldin hjá ríkissjóði aukast með samþykkt þessara laga.

Síðast en ekki síst, og ég vil ítreka það, hafa þeir fagaðilar sem hafa fjallað um þessi mál gert margvíslegar athugasemdir sem því miður hefur ekki verið tekið nægilegt mark á. Það hefur verið brugðist við ýmsum ábendingum frá rannsóknarnefnd flugslysa, en rannsóknarnefnd sjóslysa sendi í vetur enn eina umsögnina og það er auðvitað mjög dapurlegt sem þar kemur fram. Þar kemur skýrt fram hver viðbrögðin hafa verið, og ég ætla bara að fá að vitna í umsögnina, með leyfi forseta:

„RNS vill vekja athygli á því að við umfjöllun frumvarpsins þegar það hefur áður verið lagt fram hefur í engu verið tekið tillit til athugasemda RNS og því verður að telja ólíklegt að það þjóni tilgangi að eyða miklum tíma í að senda athugasemdir við frumvarpið, því álykta má sem svo að athugasemdunum sé enginn gaumur gefinn.“

Þetta er auðvitað mjög slæmt og þau viðbrögð sem lýst er í lokamálsgrein þessarar umsagnar eru óásættanleg.

Ég þekki best til hjá rannsóknarnefnd sjóslysa. Það sem ég hef verulegar áhyggjur af er faglegi þátturinn og líka að sá trúnaður og það traust sem ríkt hefur gagnvart rannsóknarnefnd sjóslysa muni dvína. Við munum auðvitað eftir því að fyrir ekkert svo ofboðslega mörgum árum var ekkert mikið traust á milli sjómanna og rannsóknarnefndar sjóslysa.

Ég lýsi enn og aftur yfir miklum vonbrigðum með að málið sé klárað með þessum hætti. Ég vil líka ítreka hvernig til að mynda rannsóknarnefnd sjóslysa hefur verið skipuð. Í henni sitja lögfræðimenntaður maður, skipstjórnarmenntaður maður, vélstjórnarmenntaður maður og síðan skipaverkfræðingur og þar fram eftir götunum, þ.e. þeir aðilar sem sitja í nefndinni hafa sérþekkingu á þeim sviðum sem tengjast þeim málaflokki sem nefndin fjallar um. Það má eiginlega orða það þannig að þetta sé hálfgert áhugasvið þessara ágætu einstaklinga sem hafa setið í nefndinni, þetta er þeirra áhugamál, en nefndarlaunin eru mjög lág. Þess vegna skýtur auðvitað skökku við að lögð skuli vera til útgjaldaaukning sem blasti við að yrði, og ber þar að þakka aðkomu hv. umhverfis- og samgöngunefndar að málinu.

Síðan vil ég bara þessu til áréttingar lesa úr einni umsögn þar sem dregnar eru saman helstu athugasemdir við frumvarpið og þessum verkferlum er mótmælt. Þar kemur fram, með leyfi forseta, að með frumvarpinu sé í fyrsta lagi ekki aukið á skýrleika eða skilvirkni laganna, í öðru lagi sé dregið úr sjálfstæði rannsóknarnefndanna sem hafi verið styrkt með núgildandi lögum. Í þriðja lagi sé hvergi sýnt fram á hver samlegðaráhrifin yrðu við slysarannsóknir í einstökum greinum, en slysarannsóknir krefjist mikillar sérþekkingar og reynslu, samanber þá staðreynd að ekki gilda sömu alþjóðlegu reglur um rannsókn slysa og að sérstök sjónarmið gilda um hverja tegund starfsemi, eðli málsins samkvæmt. Í fjórða lagi sé engin rök að finna í frumvarpinu sem sýni fram á að rannsóknum sé ábótavant eða hafi verið það. — Ég held að flestir séu sammála um það, ég hef ekki heyrt neinar raddir um að menn telji að rannsóknum sé ábótavant eða hafi verið það. Síðast en ekki síst segir að sátt ríki um núgildandi fyrirkomulag slysarannsókna og er ítrekað að sú sátt sé sett í uppnám.

Hverjir skyldu skrifa undir þessa sameiginlegu yfirlýsingu? Jú, það eru nefnilega aðilar sem þekkja nokkuð vel til. Það er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Sjómannasambandið, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Slysavarnafélagið Landsbjörg sem benda á að óráðlegt sé að fara þessa leið. En samt er hún farin.

Það má lesa það út úr nefndaráliti meiri hlutans og kemur í raun skýrt fram að athugasemdir hafi verið gerðar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Umsagnaraðilar gerðu þó ýmsar athugasemdir við frumvarpið. Flestar þeirra varða tæknileg atriði einstakra frumvarpsgreina en sameiginlegt grunnstef mátti þó finna.“

Síðan kemur þessi ákveðna setning:

„Hjá fulltrúum núverandi rannsóknarnefnda var það sjónarmið áberandi að sameining nefndanna kunni að koma niður á faglegum þáttum rannsóknanna.“

En það sem er þó merkilegt er að í rökstuðningi meiri hlutans er bent á að gagnstæð sjónarmið hafi komið fram af hálfu innanríkisráðuneytisins. Ég segi: Með fullri virðingu fyrir því góða starfsfólki sem vinnur í innanríkisráðuneytinu slær þetta mig þannig að frekar beri að taka mark á þeim fagaðilum sem fjalla um þessi mál og hafa sérþekkingu á þeim. Markmið laganna sem koma fram í 1. gr. þeirra eru skýr og auðvitað óumdeild, að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir, en ég hef verulegar áhyggjur af því að þetta markmið muni ekki nást.

Ég harma það að við skulum vera komin þetta langt með málið, það er að klárast og væntanlega verða atkvæði greidd á morgun um þennan bandorm sem fylgir í kjölfarið af samþykkt frumvarpsins sem ég hef rætt hér. Það er horfið frá því sem var í upphafi lagt upp með við framsetningu frumvarpsins um að það næðist hagræðing með þessari sameiningu, núna er viðurkennt að það verður útgjaldaaukning hjá ríkissjóði. Því miður virðist þetta mál ætla að klárast og í raun og veru er ekkert annað að gera að mínu viti, þegar nýtt þing kemur saman í vor, en að byrja á því að fella þessi lög úr gildi og halda löggjöfinni eins og hún hefur verið, hún hefur reynst okkur vel og það ríkir mikill trúnaður og traust milli rannsóknarnefndanna og þeirra aðila sem þær þurfa að fjalla um.