141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[20:26]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Markmið þessa frumvarps er að gera ákvæði 200.–202. gr. almennra hegningarlaga, sem fjalla um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum, skýrari og samræma löggjöfina ríkjandi réttarframkvæmd á þessu sviði. Þetta frumvarp á rót að rekja til umfjöllunar hv. allsherjar- og menntamálanefndar á síðasta þingvetri um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem fól í sér fullgildingu á samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu. Þá vöktum við athygli á því í nefndinni að misræmi væri í gildandi lögum sem lýtur af refsihámarki brota gegn börnum yngri en 15 ára. Þetta refsihámark er í lögunum lægra þegar um er að ræða brot gegn eigin barni eða barni sem gerandi er í fjölskyldu- eða trúnaðarsambandi við heldur en þegar um er að ræða brot gegn ótengdum börnum. Þetta geta menn séð með samanburði á 200. og 201. gr. almennra hegningarlaga og 202. gr. sömu laga.

Í gildandi lögum er refsihámarkið 12 ár þegar um er að ræða brot gegn börnum innan fjölskyldu eða trúnaðarsambands yngri en 16 ára, en hins vegar 16 ár þegar um er að ræða brot gegn börnum utan fjölskyldu sem eru yngri en 15 ára. Þarna vekur líka athygli misræmi varðandi aldursviðmiðin en á því er einnig tekið í því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Það er augljóst að það eru fráleit skilaboð frá löggjafanum sem brýnt er að leiðrétta að það sé að einhverju leyti tilefni til lægri refsihámarks að brjóta gegn eigin börnum eða börnum sem menn eru í fjölskyldu- eða trúnaðarsambandi við og það er það táknræna skref sem við lögðum til að væri stigið og er tilefni þessa frumvarps sem hér er til umræðu.

Sem betur fer hefur dómaframkvæmdin að miklu leyti verið með þeim hætti að brot gegn börnum innan fjölskyldu- eða trúnaðarsambands hafa í reynd verið metin til refsiþyngingar, en eftir stendur að löggjöfin hefur ekki verið í samræmi við þessa dómaframkvæmd.

Verði frumvarpið að lögum mun 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga verða ráðandi varðandi kynferðisbrot gegn börnum sem eru yngri en 15 ára og verður refsiramminn þá 16 ár hvort sem brotið er gegn barni innan eða utan fjölskyldu. Þetta er stóra breytingin í þessu frumvarpi. Refsihámarkið er samræmt varðandi brot innan og utan fjölskyldu- eða trúnaðarsambands og lögfest er að brot gegn börnum innan fjölskyldu- eða trúnaðarsambands skal virða til refsiþyngingar, eins og kemur fram í 4. gr. frumvarpsins.

Þá er átt við, eins og rakið er í greinargerð, ef þolandi er barn geranda, annar niðji, kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða barn sem er tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg eða barn sem viðkomandi hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, enda séu gerandi eða þolandi ekki á sama aldri og þroskastigi þannig að hægt sé að beita refsilækkunarheimild gildandi laga. Þetta er mikilvæg grein og nauðsynleg skilaboð frá löggjafanum, enda er ljóst af reynslu og fjölda rannsókna að þegar maður brýtur gegn barni sem hann er í trúnaðarsambandi við getur það haft langvinnar og jafnvel varanlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu og velferð þolandans. Slík brot skilja eftir sár sem gróa jafnvel aldrei.

Ég nefndi áðan að aldursviðmið eru jafnframt samræmd með þessu frumvarpi í 2. og 3. gr. þess þannig að aldursviðmið sem miðast við 16 ár eru afnumin en gerður greinarmunur á því hvort brot eru framin fyrir 15 ára aldur, sem er hinn skilgreindi kynferðislegi lágmarksaldur, eða á aldrinum 15–17 ára, en þá er refsihámarkið lægra, eða 12 ár. Þá er áréttað, eins og kemur fram í nefndaráliti, að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við eigið barn eða annan niðja skuli sæta fangelsi allt að átta árum ef þolandi er 18 ára eða eldri.

Ég vil vekja athygli á einu atriði sem við nefnum í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar og kallar á frekari skoðun að mati nefndarinnar. Það lýtur að alvarlegum kynferðisbrotum gegn börnum sem ekki eru eigin börn geranda eða niðjar hans en eru hins vegar í fjölskyldu- eða trúnaðarsamböndum við geranda, í þeim tilvikum þegar þolandinn er 18 ára eða eldri. Á því er ekki tekið í 200.–202. gr. en þá kæmi hins vegar til kasta 194. gr. þar sem fjallað er um nauðgun þar sem beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Spurningin er hvort sú grein mundi veita tæmandi vernd gegn slíkum kynferðisbrotum. Um það er erfitt að fullyrða að óathuguðu máli, en við í nefndinni beinum a.m.k. þeim tilmælum til refsiréttarnefndar að þetta atriði verði skoðað sérstaklega.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu sem báðar eru tæknilegs eðlis og vísa ég í nefndarálitið hvað þær varðar. Ég vil leggja áherslu á það að mikil eindrægni var í nefndinni um málið í meðferð þess, sem sést á því að fulltrúar allra þingflokka standa að álitinu og vil ég þakka fyrir þá góðu samstöðu sem náðist um þetta mál.

Ég vil líka geta þess í lokin að sérstök undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar vinnur nú að áliti um kynferðisbrotamál og meðferð þeirra í kerfinu í framhaldi af fundum sem nefndin hefur haldið um þennan málaflokk frá því í nóvember. Þar munum við leggja fram tillögur til úrbóta sem lúta m.a. að rannsókn og málsmeðferð, þjónustu við þolendur, fræðslu og forvörnum, meðferð og úrræðum gagnvart gerendum. Í þessari undirnefnd er sömuleiðis mikil og góð samstaða sem ég vona að skili sér í niðurstöðu innan tíðar sem gæti nýst framkvæmdarvaldinu til að grípa til markvissra aðgerða í þessum málaflokki.

Það þarf ekki að fjölyrða um þá miklu umfjöllun sem hefur verið um kynferðisbrot gegn börnum á undanförnum vikum. Þetta er viðkvæmur málaflokkur sem við hljótum að setja í algeran forgang, ekki síst við núverandi aðstæður þegar mikill málafjöldi er í kerfinu og bæði lögregla, neyðarmóttaka og þau samtök sem koma að þjónustu við þolendur, ríkissaksóknari og fleiri, þurfa að hafa sig allan við við að afgreiða þessi mál. Málshraðinn minnkar og það er alveg ljóst að grípa þarf til tímabundinna aðgerða til að sinna þeim sem þarna eiga um sárt að binda. Við verðum að setja þessi mál í algeran forgang, tryggja að þolendur fái mannsæmandi úrlausn sinna mála og þeir njóti skilyrðislauss forgangs í okkar samfélagi. Síðan þarf að sjálfsögðu að tryggja að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr tíðni þessara skelfilegu brota.

Ég treysti á áframhaldandi samstöðu okkar í þinginu um skjóta afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu og úrræði sem duga frá hendi ríkisstjórnarinnar í kjölfarið.