141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

efnalög.

88. mál
[20:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til efnalaga. Hér er um að ræða heildstæða yfirferð á efnalöggjöf þar sem hún er færð til nútímalegra horfs en verið hefur hingað til þar sem tekið er utan um skuldbindingar okkar í ýmsum Evrópugerðum sem að málinu snúa.

Ég vil taka það fram í upphafi að ég gerðist talsmaður og framsögumaður málsins á síðari stigum þess og hafði mikið af þeirri vinnu sem fram fór í tengslum við frumvarpið þegar verið unnin þegar ég kom að málinu. Eins og sést í nefndarálitinu er hér um allflókið og viðamikið mál að ræða. Nefndarálitið er á 13 blaðsíðum. Ég ætla þó ekki að freista þess að lesa þær allar í ræðustól Alþingis en vísa fremur til þess.

Gerðar eru allnokkrar breytingartillögur, annars vegar á sérstöku breytingartillöguskjali sem meiri hluti nefndarinnar stendur að, en einnig á öðru breytingartillöguskjali sem er þskj. 1281 þar sem tekið er á gildistökuákvæðum og einu bráðabirgðaákvæði. Gildistökuákvæðin sem þar eru, svo við klárum það fyrst, ganga fyrst og fremst út á að fresta gildistöku bráðabirgðaákvæðis 3 frá 1. júlí til 31. desember þar sem ekki mun vinnast tími til að klára það mál.

Markmið laganna er að tryggja það að fyllstu varúðar verði gætt um meðferð efna og efnablanda svo það skaði ekki heilsu manna og dýra eða valdi tjóni á umhverfi, og stuðla þannig að skilvirku eftirliti með framkvæmd laganna. Allt frá fyrstu setningu laga um eiturefni og hættuleg efni árið 1968 hefur heilsa manna og dýra verið þungamiðja laganna en nú er umhverfisþættinum bætt inn í þann pakka.

Einnig er markmið laganna að tryggja frjálst fæði efna og efnablandna á markaði og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu um leið og tryggt er að nauðsynlegum upplýsingum sé miðlað eftir því sem nauðsynlegt er. Það eftirlit sem fram hefur farið með efnum og efnablöndum á Íslandi undanfarin ár er fyrst og fremst eftirlit með merkingum efna og efnablandna í verslunum og þjónustufyrirtækjum. Það eru þá heilbrigðisnefndir sem gefa út starfsleyfi á grundvelli laga nr. 7/1998. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að sú skylda heilbrigðisnefnda breytist, með þeirri undantekningu þó að felld verður út starfsleyfisskylda fyrir verslun með vörur sem innihalda hættuleg efni og eiturefni og verslun með fegrunar- og snyrtiefni.

Markaður með efni, efnablöndur og efni í hlutum er byggður upp á Evrópska efnahagssvæðinu á þann hátt að efst í aðfangakeðjunni eru innflytjendur og framleiðendur. Eftirlit með þeim aðilum felst í því að fara yfir þau efni sem þeir framleiða og/eða flytja inn frá löndum utan EES, kalla eftir skráningarnúmerum efnanna og bera þau þannig saman við upplýsingar í gagnabanka Efnastofnunar Evrópu auk þess sem kallað er eftir og farið yfir öryggisblöð. Framleiðendur, innflytjendur og eftirnotendur bera ábyrgð á að efni og efnablöndur séu rétt flokkaðar og merktar áður en þær fara á markað, samanber 30. gr. frumvarpsins. Eftirlit með flokkun og merkingu efna og efnablandna þarf því að fara fram hjá þeim en ekki í þeim verslunum þar sem efni og efnablöndur eru til sölu. Hugmyndafræðin þar er sem sagt að færa eftirlitið ofar í aðfangakeðjunni þannig að hægt sé að grípa fyrr inn í, það kemur m.a. fram í athugasemdum Umhverfisstofnunar. Meiri hlutinn er sammála þeirri skoðun Umhverfisstofnunar að mun hagkvæmara og markvissara sé að gera kröfur um breytingar hjá birgi en í mörgum smásöluverslunum sem birginn getur selt til.

Aðrir eftirlitsþættir samkvæmt frumvarpinu tengjast m.a. eftirliti með takmörkunum á tilteknum efnum í vörum og vöruhlutum, innflutningi flúor- eða gróðurhúsalofttegunda og ósoneyðandi efna, eftirliti með markaðssetningu og merkingu snyrtivara, eftirliti með tilkynningum frá aðilum sem markaðssetja eiturefni og tiltekin varnarefni og eftirlit með öryggisblöðum, svo eitthvað sé nefnt.

Í frumvarpinu er horfið frá hefðbundnu eftirliti sem byggist á grunni starfsleyfa eins og í núgildandi lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og þess í stað er markmiðið heildstætt eftirlit í allri áfangakeðjunni. Það skiptir töluverðu máli. Það er komið á eftirliti með öllum þáttum á einum stað, þ.e. hjá Umhverfisstofnun.

Meiri hlutinn telur að með þessari nýju hugmyndafræði í eftirliti á Íslandi muni fljótlega skapast markaðir sem neytendur geta treyst enda munu viðurlög við brotum verða markvissari og skýrari með tilkomu stjórnvaldssekta. Vert er að benda á að markaður með efnum og efnablöndum á Íslandi er ekki stór í samanburði við önnur lönd innan EES og er því til mikils að vinna að reyna að einfalda kerfið.

Varðandi umsagnir um aukinn kostnað við eftirlit hjá Umhverfisstofnun er bent á að með frumvarpinu er gerð áherslubreyting í eftirliti með efnum, efnablöndum og efnum í hlutum. Eftirlitið mun ekki einskorðast við merkingar heldur verður það eflt og haft verður eftirlit með öllum þáttum sem lögin taka til, eins og fram kom hér að framan. Meiri hlutinn telur mikilvægt að eftirlit verði eflt á þennan hátt þar sem staðreyndin er að notkun efna og áhrif þeirra bæði á menn og umhverfi er sífellt að koma betur og betur í ljós og einnig hefur athygli manna beinst að svokölluðum kokteiláhrifum hormónaraskandi efna. Því er mikilvægt að þau efni, efnablöndur og hlutir sem eru á markaði hér uppfylli kröfur laga þessara og að gott eftirlit sé haft með því.

Það er líka mikilvægt að taka það fram að hluta af eftirlitinu er hægt að framkvæma rafrænt þannig að ekki er um að ræða einhver risavaxin pappírsskrímsli í því efni.

Í umsögnum margra umsagnaraðila voru gerðar athugasemdir við orðalag í frumvarpinu og á fundum nefndarinnar með fulltrúum ráðuneytis og Umhverfisstofnunar kom fram að orðalag og orðanotkun í lagabálkinum væri í samræmi við það sem er annars staðar, t.d. í lögum nr. 45/2008, og er því meiri hlutinn í rauninni ekki að gera grundvallarbreytingar á þeim atriðum. Athugasemd var gerð við það að í upptalningu á eftirliti Umhverfisstofnunar í 5. gr. frumvarpsins vantaði eftirlit með því að öryggisblöð fyrir þau efni sem notuð eru í fyrirtækjum væru til staðar, en við umfjöllun málsins kom fram að eins og áður muni Umhverfisstofnun hafa eftirlit með þessum blöðum samhliða hinu svokallaða REACH-eftirliti, sem sagt efst í aðfangakeðjunni.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, frú forseti, þá ætla ég ekki að rekja í smáatriðum allt sem er í nefndarálitinu enda er hæpið að mér vinnist tími til þess á þeim tíma sem mér er hér ætlaður. Álitið er allítarlegt og það er mikilvægt lögskýringargagn. Ég vil þó nefna nokkur fleiri atriði. Á bls. 7 í nefndarálitinu er fjallað um Mannvirkjastofnun. Hún bendir á í umfjöllun sinni um málið að í íslenska löggjöf vanti heildstæð skýr ákvæði er snúa að mengunaróhöppum af völdum efna, um samstarf og hlutverkaskiptingu mismunandi eftirlitsaðila þegar óhöpp verða og ábyrgð þess sem mengun veldur, bótaskyldu, ábyrgð og skyldu til greiðslu kostnaðar af upphreinsun. Meiri hlutinn tekur í rauninni undir það að skerpa megi á þeim ákvæðum í löggjöf en telur að þessi ákvæði þurfi þá að vera í mengunarlöggjöf en ekki í almennri efnalöggjöf.

Í næstu köflum nefndarálitsins er fjallað m.a. um markmið og skilgreiningar. Þar kemur m.a. fram að Umhverfisstofnun lagði til tvær breytingar á skilgreiningum í 3. gr., en í reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 1907/2006 sem innleitt var með reglugerð nr. 750/2008, um skráningu, mat, leyfisveitingar og takmarkanir að því er varðar efni er framleiðsla efna gerð skráningarskyld. Sú skylda endurspeglast í lögunum og því þarf þessi skilgreining að vera í samræmi við framangreinda Evrópureglugerð. Umhverfisstofnun lagði til sömu skýringu hér og í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1907/2006. Enn fremur lagði hún til að skilgreiningu á orðinu „meðferð“ yrði ýtt út þannig að vigtun, blöndun og áfylling yrði hluti af skilgreiningunni og tekur meiri hlutinn undir það.

Í 5. gr. þar sem fjallað er um hlutverk Umhverfisstofnunar telur meiri hlutinn að með samþykkt frumvarpsins verði stigið mikilvægt skref í eftirliti með efnum hér á landi. Farið hefur fram mjög mikil vinna hjá Umhverfisstofnun við greiningu og framkvæmd Evrópulöggjafarinnar sem liggur m.a. að baki þessum lagabálki og einnig innlendrar löggjafar, eins og fram kemur í næstu málsgreinum nefndarálitsins. Er meiri hluti nefndarinnar afar ánægður með þá vinnu sem þar hefur farið fram en tekur einnig undir margar af þeim breytingum sem Umhverfisstofnun lagði til.

Ég ítreka það sem ég sagði fyrr að hér er á köflum um mjög flókna og tæknilega löggjöf að ræða og þarna liggur að baki mjög mikil vinna. Meiri hlutinn er að því leyti til mjög ánægður með þær breytingar sem við leggjum til í breytingaskjali, en þær eru flestar byggðar á umsögnum og mikið af því á umsögnum Umhverfisstofnunar.

Í 6. gr. er fjallað um hlutverk heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Í 2. tölulið er fjallað um eftirlit heilbrigðisnefnda við meðferð, notkun og merkingum efna í skyldri starfsemi. Meiri hlutinn telur að bæta þurfi ákvæði við setningu um að Umhverfisstofnun verði upplýst um niðurstöðu eftirlits eftir því ef um brot er að ræða á lögum þessum. Við leggjum í þessu tilliti til minni háttar orðalagsbreytingar á 6. gr. til að auka skýrleika.

Í 10. gr. er komið inn á hlutverk eiturefnamiðstöðvar Landspítala og raunar einnig aðeins aftar, þ.e. það mun vera í 30. gr. Þar gerir meiri hlutinn minni háttar breytingar sem skýrðar eru í nefndarálitinu. Þær eru fyrst og fremst þarna til að skýra betur hlutverk eiturefnamiðstöðvar Landspítalans, en eins og gefur að skilja eru ekki margar stofnanir á landinu sem geta haft svo sérhæft hlutverk eins og þar kemur fram.

Frú forseti. Ég ætla ekki að rekja í smáatriðum það sem eftir stendur í nefndarálitinu en eins og ég kom inn á í upphafi er það allítarlegt og mörg atriði sem liggja undir. Unnin hefur verið ágætisvinna í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að málinu og gríðarmikil vinna í nefndarálitinu hjá starfsmönnum þingsins sem ber að þakka.

Undir álitið skrifa auk undirritaðs hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Mörður Árnason og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Ég læt hér lokið lestrinum um þetta ágæta frumvarp.