141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013--2016.

582. mál
[21:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað margt sem hægt er að ræða um þegar kemur að þróunarsamvinnu Íslands við önnur ríki og þeirri áætlun sem hér er lagt upp með. Ég vil þó fyrst segja að saga okkar sjálfra er einmitt sagan um það hvernig örsnautt, bláfátækt ríki, sem var ríkt að náttúruauðlindum, náði með því að nýta sér þær náttúruauðlindir og um leið einnig alþjóðlegt fjármagn og aðgang að mörkuðum að vinna sig úr algerri fátækt til bjargálna og síðar til mikils ríkidæmis.

Virðulegi forseti. Því nefni ég þetta? Jú, vegna þess að um mörg þau ríki sem nú eru fátækust í veröldinni er svo háttað að þar eru gríðarleg tækifæri til að búa þegnum þeirra landa hin ágætustu lífskjör. Það er sárara en tárum taki hvernig svo stór hluti mannkynsins býr við fátækt þar sem öll tækifæri eru til staðar til að búa svo miklu fleira fólki svo miklu betri kjör.

Það má líka benda á annað dæmi um ríki sem ekki fyrir svo löngu var fátækt, Singapúr, sem á undraskömmum tíma breyttist úr því að vera allt að því óbyggilegt svæði í það að verða eitt allra ríkasta ríki veraldarinnar. Lexían er auðvitað að þetta er hægt og við eigum að vera bjartsýn og full trúar á að hægt sé að gera heiminn betri.

Mér hefur þó stundum þótt gæta nokkurs tvískinnungs í umræðunni um þróunarmál af því að það sem við Vesturlandabúar gætum gert mest og best fyrir hin fátækari ríki er að opna markaði okkar sem mest fyrir útflutningi frá þessum ríkjum. Það er það sem gerði okkur Íslendingum kleift að vinna okkur til okkar ríkidæmis, það að við gátum nýtt náttúruauðlindirnar okkar og flutt þær út, fengið fyrir þær gjaldeyri og keypt nauðsynjavörur og byggt upp samfélagið. Það vantar nokkuð upp á að hugur fylgi alltaf máli þegar kemur að því að hjálpa þróunarlöndunum. Orð eru ódýr, eins og menn þekkja, og oft er talað um þetta í hátíðartón, en svo þegar kemur að því aðalatriði sem er að veita þessum löndum aðgang að mörkuðum ríku landanna verður þetta oft miklu erfiðara. Þá koma hagsmunirnir sem gera það að verkum að þessar þjóðir fá ekki að nýta landgæði sín og náttúruauðlindir eins og tækifærin ættu að vera raunverulega.

Hitt málið er það að stjórnarfar er oft og tíðum í þessum löndum þannig að það eitt og sér býr til alveg gríðarlega fátækt. Stundum er það þannig að mannvonskan ríður ekki við einteyming og stundum heldur maður að það sé engin von fyrir sumar þjóðir þar sem stjórnendur eftir stjórnendur virðast ekki hafa neitt annað á sinni stefnuskrá en að vígbúast og berjast hver við annan. Það er auðvitað hin svarta sorgarsaga.

Okkur Íslendingum ber skylda til, eins og öðrum vel stæðum þjóðum, að gera það sem við getum til að hjálpa. Sú aðstoð getur falist í fjárframlögum og hún felst ekki síður í því að flytja út þekkingu og kunnáttu og aðstoð við það að byggja þessi samfélög upp. Þess vegna er ég sérstaklega ánægður með þá umræðu sem er í nefndarálitinu með tillögunni um Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér, í jarðhitanum, landbúnaðinum og í fiskveiðunum. Það er einmitt í gegnum vísindi, tækni og menntun sem stærstu skrefin verða stigin í þróunarsamvinnunni og þróunarhjálpinni. Það er grundvallaratriði að kenna fólki að nýta náttúruauðlindir sínar. Þar höfum við Íslendingar eitthvað fram að færa, jafnvel á heimsmælikvarða, alveg sérstaklega með fiskveiðarnar og orkuna, en einnig landbúnaðinn þó að kannski síður sé í þessu tilviki.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, virðulegi forseti, en ég vildi þó loka þessum þætti málsins með því að segja — það er ekki víst að allir hv. þingmenn séu mér sammála um það — að því betur sem samfélögunum tekst að tileinka sér framleiðsluhætti kapítalismans, þeim mun betra. Þeir byggja á því að í þeim löndum sé réttarríki, menn geti treyst á eignarréttinn, hafi allar þær varnir einstaklinga sem við þekkjum á Vesturlöndum, einstaklingsfrelsið tryggt sem og réttindi manna. Það er grundvöllur þess að kapítalískt hagkerfi fái þrifist. Stóra verkefnið er að gefa íbúum fátækra landa tækifæri og tækifærið byggir á því að eiga möguleika á að nýta náttúruauðlindir sínar, framleiða og selja, og byggja þannig upp betri samfélög rétt eins og við Íslendingar gátum gert.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á breytingartillögu sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir hefur lagt fram. Fyrirvarar hennar snúa einkum að fjárhagslegri getu ríkissjóðs til að standa undir þeim útgjöldum sem lagt er upp með í þessari þróunarsamvinnuáætlun. Hv. þingmaður gerir breytingartillögu við d-liðinn í breytingartillögu meiri hlutans þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Verði hagvöxtur meiri en nú er spáð komi framlögin til endurskoðunar en jafnframt verði tryggt að framlög til þróunarmála verði ekki lægri að raungildi en árið 2013.“

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir leggur til að í stað ártalsins 2013 í d-liðnum komi 2011, með öðrum orðum að það verði viðmiðunarárið. Rökin eru þau að það er fyrirsjáanleg töluverð útgjaldaaukning hjá ríkissjóði Íslands á næstu árum ásamt því, því miður, að hagvaxtarhorfur eru ekki bjartar. Ég hegg sjálfur eftir því hér sem sagt er í breytingartillögunni, með leyfi virðulegs forseta:

„Verði hagvöxtur meiri en nú er spáð …“

Það væri ánægjulegt vandamál ef það yrði svo en því miður hefur þróunin verið önnur, hagvöxtur hefur verið minni en spáð hefur verið.

Virðulegur forseti. Ég vildi sérstaklega benda á þessa breytingartillögu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur sem lýtur fyrst og síðast að fjárhagslegri getu okkar. Það er nauðsynlegt í þessu máli eins og öðrum að við sníðum okkur stakk eftir vexti og tryggjum það að við nýtum vel þá fjármuni sem við verjum til þessara mála og ætlum okkur ekki um of þannig að ég lýsi yfir stuðningi við þessa breytingartillögu hv. þingmanns.