141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[22:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurningu hv. þingmanns sem snýr að þeim verkefnum sem fram undan eru hjá þeirri fjárlaganefnd sem tekur við held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að sú fjárlaganefnd verði samhent, öflug og fari í mun meiri og faglegri vinnu en okkur hefur gefist kostur á. Það hefur ekki vantað viljann í nefndinni. Það er líka mjög mikilvægt að menn geri kröfu um að fá þau gögn og þær upplýsingar sem eru til grundvallar viðkomandi verkefnum og hafi líka tíma til að fara yfir þá hluti sem fyrir nefndina eru lagðir.

Hv. þingmaður nefnir þær breytingar sem voru gerðar á safnliðunum, mjög mikið prinsippmál. Ég fór yfir það í fjárlagagerðinni fyrir árið 2013, þ.e. í desember sl., og mér finnst afskaplega mikið óréttlæti að þeirri breytingu hafi í raun verið snúið. Það sem gerðist var það að fjárlaganefnd tók safnliðina út fyrir sviga og sagði: Nú er nefndin hætt að sýslast í þessu, það fer í faglegan farveg, við þurfum að færa þetta meira inn í menningarsamningana, inn í sjóðina þar sem eru gegnsæjar reglur og gerðar kröfur til manna um að svara fyrir gjörðir sínar. Þetta lofaði góðu en síðan er óréttlætið það dapurlegasta og sem ég er mjög ósáttur við vegna þess að þetta var prinsippmál í mínum huga. Sagt var við alla sem ætluðu að sækja um styrki til Alþingis: Nei, nefndin tekur ekki á móti styrkbeiðnum, þið verðið að fara til ráðuneytanna. Þegar meiri hlutinn kom með fjárveitingar upp á tugi milljóna í gegnum breytingartillögur meiri hlutans, sem voru klárlega óumdeildir safnliðir, fannst mér þetta algjört prinsippbrot. Það sem var verst var óréttlætið vegna þess að sumir höfðu aðgang að þingmönnum, aðrir ekki, og sumum var bent á að ekki væri tekið á móti umsóknum. Að mínu viti er mjög ámælisvert hvernig að þessum hlutum var staðið.