141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í kynningu forseta þá mæli ég hér fyrir nefndaráliti hv. atvinnuveganefndar um þennan mikla lagabálk, heildarlagabálk um velferð dýra sem felur í sér allmörg álitamál og úrlausnarefni sem nefndin tók til umræðu og umfjöllunar. Engu að síður náðist góður samhugur í atvinnuveganefnd um þetta mál sem þakka ber.

Nefndin hélt allmarga fundi og fékk til fundar við sig marga gesti sem tilgreindir eru nánar á þskj. 1216, og má segja að þeir gestir allir hafi verið góður þverskurður af stríðandi hagsmunum og sjónarmiðum í þessu máli. Umsagnir sem bárust voru fjölmargar og mun fleiri en gestakomum nam.

Í þessu frumvarpi er lagt til að samþykkt verði ný lög um velferð dýra sem leysi af hólmi eldri lög um dýravernd og að hluta til einnig lög um búfjárhald. Þetta frumvarp er afurð tillagna sem bárust frá nefnd um endurskoðun dýraverndarlaga en hún starfaði með það að markmiði að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar yrði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd.

Eins og kemur fram í athugasemdum frumvarpsins er ætlunin með þessari nýju heildstæðu löggjöf að eitt ráðuneyti fari með forsjá löggjafarinnar og ein stofnun, Matvælastofnun, fari með framkvæmd málaflokksins því að hjá Matvælastofnun mun vera mikil fagþekking á velferð dýra. Samhliða er lagt til að störf búfjáreftirlitsmanna verði flutt frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar en hlutverk þeirra er að stærstum hluta eftirlit með velferð búfjár.

Almennt má segja um umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið að það kom mjög oftlega fram í umsögnum og á fundum nefndarinnar að endurskoðun dýraverndarlaganna, sem við köllum núna dýravelferðarlög, væri þarft verk. Menn bentu á erfið tilvik sem ekki hefur verið mögulegt að leysa á grundvelli gildandi laga og því fögnuðu því margir að frumvarpið stefndi að mikilli einföldun á stjórnsýslu og eftirliti þar sem lagt væri til að eitt ráðuneyti og ein ríkisstofnun færi með yfirstjórn og framkvæmd mála á sviði dýravelferðar.

Þeim almennu athugasemdum sem komu fram fyrir nefndinni má eiginlega skipta í tvo flokka. Annars vegar gagnrýni á að ekki væri tekið á tilteknum atriðum í frumvarpinu, til dæmis með ákvæðum um bann við verksmiðjubúskap, loðdýrarækt og fleira, en á hinn bóginn voru athugasemdir um að of langt væri gengið í tilteknum atriðum, til dæmis hvað varðaði valdaframsal til ráðherra. Nefndin fjallar í nefndaráliti sínu almennt um þessa gagnrýni, en tekur undir þá hvatningu umsagnaraðila að vinnu við reglugerðir sem setja þarf á grundvelli frumvarpsins verði hraðað eins og kostur er.

Nefndin fjallaði meðal annars um hlutverk lögreglu í eftirlits- og þvingunarúrræðahluta frumvarpsins. Samkvæmt 8. gr. frumvarpsins skal tilkynna það lögreglu eða Matvælastofnun ef grunur leikur á um illa meðferð dýra og samkvæmt 33. gr. frumvarpsins getur lögregla fyrirvaralaust tekið dýr úr vörslu eiganda eða umsjónarmanns ef grunur leikur á um alvarlegt brot. Lögreglu er í þessu skyni heimilt að fara inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án dómsúrskurðar ef brýn hætta er talin á að bið eftir úrskurði valdi dýrum sem í hlut eiga skaða.

Nefndin ræddi þetta nokkuð og bendir á að í 2. gr. lögreglulaga er hlutverk lögreglu skilgreint. Að mati nefndarinnar falla þær skyldur sem lagt er til að lögreglan hafi samkvæmt frumvarpinu vel að skilgreindu hlutverki lögreglu samkvæmt lögreglulögum. Lögregluembættin eru staðsett víða um land, umdæmi þeirra ná til dreifbýlisins, lögreglustörf eru fjölbreytt og lögreglan er oftast fyrst á staðinn þegar eitthvað bjátar á. Nefndin fær ekki séð að nokkurt annað yfirvald hafi sambærilegar almennar heimildir eða valdbeitingarheimildir.

Við fjölluðum um gildissvið laganna, um skilgreiningar, stjórn dýravelferðarmála og þar kom að að rætt var nokkuð um fagráð um velferð dýra því að í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði á stofn svokallað fagráð sem yrði nokkurs konar vettvangur fagfólks á sviði dýralækninga, dýrafræði, dýraatferlisfræði, dýravelferðar, dýratilrauna, búfjárfræða og siðfræði þar sem fengist verði við fræðileg álitamál á sviði dýravelferðar.

Nefndin telur að tryggja þurfi Matvælastofnun nægileg fjárframlög til að standa undir rekstri þessa fagráðs. Ekki verði betur séð en að litið hafi verið til verkefna þess í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins. Nefndin telur eðlilega kröfu að starfsmaður fagráðsins hafi nauðsynlega sérþekkingu en telur þó ekki ástæðu til að þrengja möguleika ráðsins umfram það að ráðinn skuli starfsmaður með sérfræðiþekkingu á starfssviði þess. Við töldum eðlilegt að Bændasamtök Íslands ættu fulltrúa í fagráði um velferð dýra, enda koma þau fram fyrir hönd stórs hluta dýrahaldara í landinu.

Í 6. gr. frumvarpsins kemur fram almenn regla um meðferð dýra. Þar er lagt til að skylt verði að fara vel með dýr og að umráðamaður beri ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Sérstaklega er tekið fram að ill meðferð dýra sé óheimil. Í 3. gr. er hugtakið umráðamaður skilgreint. Þannig teljast eigendur dýra eða aðrir aðilar sem ábyrgir eru fyrir umsjá dýra til umráðamanna. Skilningur nefndarinnar er sá að með 6. gr., í samhengi við 3. gr. frumvarpsins, sé í reynd verið að leggja til að komið verði á nokkurs konar ábyrgðarkerfi þar sem tryggt verði að ábyrgðin á meðferð dýra hvíli ávallt á herðum þess sem það stendur næst að hlutast til um að vel sé farið með dýrið.

Frumvarpið kveður á um hjálparskyldu. Meginregla hjálparskyldunnar er sett fram í 1. mgr. 7. gr. þar sem segir að þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti beri að veita því umönnun eftir föngum. Síðan er fjallað um skyldur sveitarfélaga og hvernig fara beri með kostnað sem hlýst af því að hjálparskyldu er sinnt.

Í ljósi dýravelferðarsjónarmiða og þess skipulags sem ætlunin er að koma á með frumvarpinu telur nefndin eðlilegt að kveðið sé á um þá meginreglu að ráðherra sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra beri endanlega kostnaðarábyrgð vegna meðferðar dýra sem lenda í mengunarslysum. Sú regla mun jafnt gilda innan sem utan gildissviðs laga um varnir gegn mengun hafs og stranda og laga um umhverfisáhrif.

Að mati nefndarinnar er eðlilegt að hjálparskylda við hálfvillt eða villt dýr verði felld á sveitarfélögin, enda ráða þau málum innan sinna marka á grundvelli sjálfstæðis síns og laga og er fyrirsjáanlegt að flest mál sem snerta villt og hálfvillt dýr muni hafa tengsl við sveitarfélögin. Í umsögn Matvælastofnunar segist stofnunin hafa áhyggjur af því að það muni oft reynast erfitt eða jafnvel ómögulegt að innheimta endurgreiðslur kostnaðar vegna umönnunar og meðhöndlunar dýra í neyð og bendir á að mikilvægt sé að tryggja að dýr þjáist ekki að óþörfu og því sé nauðsynlegt að hugað verði að því hvernig ríkið geti tryggt endurgreiðslur í slíkum tilvikum. Stofnunin leggur til að stofnaður verði sjóður undir forræði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Nokkrir umsagnaraðilar taka undir þessa skoðun Matvælastofnunar.

Það kemur líka fram í minnisblaði frá ráðuneytinu að nefndin sem samdi fyrirliggjandi frumvarp hafi rætt möguleika á stofnun slíks sjóðs en niðurstaða hennar hafi verið að um of dýra og viðurhlutamikla aðgerð yrði að ræða. Atvinnuveganefnd telur að stofnun slíks sjóðs mundi hafa jákvæð áhrif, en við teljum ekki tímabært að leggja til sjóðstofnun því að við álítum að undirbúningur þess þyrfti lengri aðdraganda og það þyrfti að liggja fyrir hvernig ætti að fjármagna slíkan hjálparsjóð.

Við ræddum líka allmikið um tilkynningarskyldu um brot á lögum um velferð dýra. Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um tilkynningarskyldu. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um hverjir séu tilkynningarskyldir og til hverra þeir skuli tilkynna um brot gegn ákvæðum laganna eða brot á reglugerðum. Í öðru lagi kemur þar fram heimild til nafnlausrar tilkynningar. Ef tilkynning hefur augljóslega verið tilhæfulaus eða aðrar veigamiklar ástæður eru til þess gerir frumvarpið ráð fyrir því að unnt sé að víkja þessari nafnleynd til hliðar. Bent hefur verið á að þetta kunni að vera annmörkum háð. Nefndin sá ástæðu til að breyta þessu til samræmis við 9. gr. barnaverndarlaga þar sem í greinargerð með barnaverndarlögum er vísað til réttlátrar málsmeðferðar, aðili máls hafi rétt til að vita hver tilkynnti enda kunni það að skipta hann miklu máli til að andmælaréttur hans nýtist að fullu. Því þurfi að gera ráð fyrir því sem meginreglu að aðili eigi rétt á að vita hver tilkynnandi er. Í greinargerð með barnaverndarlögum er líka fjallað um það að sé tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd muni það fæla þá frá því að tilkynna og afleiðingin kunni þá að verða sú að upplýsingar berist ekki lengur þótt full þörf kunni að vera á afskiptum stjórnvaldsins.

Þarna togast sem sagt tvenns konar hagsmunir á. Atvinnuveganefnd vildi yfirfæra þessi sjónarmið yfir á tilkynningarskyldu í dýraverndarlögum og nefndin álítur að það sé sérstök þörf á því að tryggja möguleika manna til að tilkynna um brot gegn reglum frumvarpsins. Dýr hafa ekki málsvara og hafa engin tök á því að láta vita af illri meðferð. Það kom fram á fundum nefndarinnar að mikil þögn ríkir oft um illa meðferð á dýrum og því geta brot gegn dýrum viðgengist lengi án þess að nokkuð sé að gert. Þessi þögn ríkir oft í skugga vinskapar, nábýlis og samstöðu, t.d. til sveita.

Nefndin áleit því að eðlilegt væri að herða enn frekar á rétti til nafnleyndar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Nefndin leggur til að kveðið sé á um rétt tilkynnanda til að óska nafnleyndar gagnvart öðrum en Matvælastofnun eða lögreglu, og skyldu Matvælastofnunar til að meta hvort hagsmunir tilkynnanda skaðist ef greint er frá nafni hans. Sé svo þá beri að fallast á ósk um nafnleynd.

Þá leggjum við líka til að skýrt verði kveðið á um frávik frá tilkynningarskyldunni þannig að ef ekki eru forsendur til að fallast á nafnleynd verði tilkynnanda heimilt að draga tilkynningu sína til baka. Síðan ræddum við líka hvort ekki væri rétt að herða á tilkynningarskyldu dýralækna og heilbrigðisstarfsmanna dýra. Við leggjum til að ný grein bætist við frumvarpið á eftir 8. gr. sem sækir í raun fyrirmynd sína til þeirra greina barnaverndarlaga sem ég hef nú rakið.

Í kaflanum um getu, hæfni og ábyrgð kemur fram það álit nefndarinnar að ekki sé hægt að útiloka að þær aðstæður kunni að koma upp að nauðsynlegt verði að setja reglur um hæfni þeirra sem fást við dýrahald. Gerist það verða slíkar reglur að hafa nægilega lagastoð. Þess vegna leggjum við til nýja málsgrein sem bætist við 9. gr. frumvarpsins og kveður á um heimild ráðherra til að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um þær kröfur sem gerðar eru til umráðamanna varðandi getu og hæfni, svo sem um menntun.

Talsvert var rætt um það fyrirkomulag sem frumvarpið boðar varðandi leyfisskyldu í 11. gr. Í minnisblaði frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að nefndin sem samdi frumvarpið hafi álitið það til bóta fyrir eftirlitsaðila með dýravelferðarmálum að innleiða almenna leyfisskyldu gagnvart dýrahaldi sem ekki teldist til almennrar frístundaiðju.

Matvælastofnun fjallar einnig ítarlega um 11. gr. frumvarpsins í umsögn sinni. Þar kemur meðal annars fram að þegar sé mögulegt að öðlast yfirsýn yfir málaflokkinn hvað búfjáreigendur varðar en ekki yfir þá aðila sem reka aðra starfsemi í tengslum við dýrahald eða stóra gæludýraræktendur. Stofnunin segir að vandséð sé að leyfisveiting fyrirbyggi að dýravelferðarmál komi upp í framhaldi af vandamálum eigenda og umráðamanna dýra.

Nefndin telur að þær ábendingar og gagnrýni sem koma fram í umsögn Matvælastofnunar og minnisblaði eigi rétt á sér og því leggjum við til breytingar á 11. gr. frumvarpsins þannig að í stað leyfisskyldu komi tilkynningarskylda vegna dýrahalds í atvinnuskyni. Óheimilt verði að hefja starfsemi áður en tilkynnt hefur verið um hana, skilyrði uppfyllt og húsakostur, búnaður og þekking tekin út af Matvælastofnun. Einnig vísum við til fyrrgreindra tillagna um breytingu á 9. gr. um að heimilt sé að kveða á um tiltekna lágmarksþekkingu í reglugerð og í þriðja lagi að bætt verði inn ákvæði þar sem Matvælastofnun verði heimilað að stöðva starfsemi.

Í 12. gr. frumvarpsins er fjallað um eftirlit Matvælastofnunar með leyfisskyldri starfsemi. Þar er lagt til að umfang og tíðni eftirlitsins byggi á sérstakri áhættuflokkun en að öðru leyti verði nánar mælt fyrir um eftirlitið og framkvæmd þess með reglugerð.

Matvælastofnun leggur til breytingu á frumvarpsgreininni og vísar til þess að hún sé í raun í samræmi við hugmyndir stofnunarinnar. Tillaga hennar felur í sér að í stað þess að öll leyfisskyld starfsemi verði háð eftirliti Matvælastofnunar verði öll starfsemi sem lög um velferð dýra nær til háð slíku eftirliti.

Álit nefndarinnar er að rétt sé að leggja til breytingar á 12. gr. frumvarpsins til samræmis við tillögur Matvælastofnunar, þ.e. að með áhættuflokkun eigi að verða hægt að beina eftirlitinu að þeim sem þurfa á því að halda. Allt að einu er nefndin þeirrar skoðunar að rétt sé að kveða á um tiltekið lágmark eftirlitsheimsókna í frumvarpsgreininni og því leggjum við til að miðað sé við að eftirlit eigi sér stað að jafnaði eigi sjaldnar en annað hvert ár.

Í 13. gr. eru settar fram þær lágmarkskröfur sem lagt er til að umráðamönnum dýra beri að tryggja. Í umsögn dýraverndarráðs um meðferð dýra er sett fram sú skoðun að skýrara og heppilegra sé að kveða á um að tryggja beri grasbítum beit í stað útivistar á beitilandi. Bændasamtök Íslands taka undir þetta en vilja þó frekar ræða um nægilega beit í þessu samhengi.

Nefndin telur að tillögur dýraverndarráðs og Bændasamtakanna um breytingar á þessu séu réttmætar. Nefndin leggur til að breyta þessu ákvæði þannig að kveðið verði á um skyldu til að tryggja grasbítum beit á grónu landi á sumrin.

Varðandi aðgerðir og meðhöndlun er í 15. gr. frumvarpsins lagt til að kveðið verði á um tvær meginreglur. Annars vegar að skurðaðgerðir á dýrum skuli ekki framkvæmdar nema af læknisfræðilegum ástæðum, hins vegar að við sársaukafullar aðgerðir eða meðhöndlun skuli ávallt deyfa eða svæfa dýr og veita því verkjastillandi meðhöndlun. Frá báðum meginreglum eru lagðar til undantekningar þannig að þessi meginregla eigi ekki við um fjarlægingu horna og spora af dagsgömlum hönum og geldingar dýra og merkingar á dýrum sem hafa verið heimilaðar í lögum og reglugerðum.

Um geldingarmál á grísum urðu miklar umræður því að frumvarpið gerði ráð fyrir því að gera mætti undantekningu vegna grísa sem yngri eru en vikugamlir, þá mætti gelda án deyfingar. Til að gera langa sögu stutta telur nefndin að ekki sé rétt að bæta inn slíku heimildarákvæði og vísar til þess að í nágrannalöndum okkar er víða verið að hverfa frá geldingum almennt í svínarækt. Evrópusambandið hefur sett það á sína stefnuskrá að hverfa algerlega frá geldingum grísa frá og með árinu 2018 og geldingar ódeyfðra grísa voru með öllu bannaðar frá og með 1. janúar 2012. Við teljum rétt að við tökum mið af þróuninni í nágrannalöndum okkar. Auk þess eru aðrar aðferðir tækar varðandi þetta svo sem lyfjagelding, sem er einföld aðgerð með bólusetningu, og einnig sá möguleiki að gelda ekki en slátra fyrr.

Ég ætla að fara hratt yfir sögu því að þetta er gríðarlega mikið nefndarálit og ógjörningur að drepa á öll þau álitamál sem hér koma fram. Frumvarpið herðir á ákvæðum sem lúta að aðgerðum og meðhöndlun dýra, flutningi dýra, merkingum þeirra, handsömun og ótal margt fleira sem til bóta má horfa þar sem ýmist eru ný ákvæði eða skerpt á ákvæðum sem fyrir eru í núgildandi dýraverndarlögum.

Við tókum refsiábyrgðarhlutann líka fyrir, endurskoðuðum hann, skerptum verulega á honum og gerðum hann ítarlegri og fyllri.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Kristján Möller formaður, Ólína Þorvarðardóttir, Björn Valur Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, en Einar K. Guðfinnsson, Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson með fyrirvara.

Frú forseti. Ég vil að lokum segja að ég tel að þessi endurskoðaða löggjöf um velferð dýra sé mikið fagnaðarefni. Það er liður í siðvæðingu samfélags að vel sé búið að dýrum sem höfð eru til nytja og þess gætt að dýr líði hvorki skort né þjáningu verði við það ráðið. Skýr lagarammi, skilvirkt eftirlit og markviss stjórnsýsla stuðla að því, því að dýr eru skyni gæddar verur og mikilvægt að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli. Nýting dýra og umgengni við þau þarf að einkennast af alúð og virðingu fyrir sköpunarverkinu.

Frú forseti. Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið.