141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[23:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni, Ólínu Þorvarðardóttur, og nefndinni allri fyrir mikið starf í þessu máli. Eins og fram kom hjá hv. framsögumanni er nefndarálitið upp á 34 blaðsíður og það voru þó nokkuð margar breytingartillögur, óvanalega margar, einar 25.

Ég kem hingað til að greina frá fyrirvara okkar, þess sem hér stendur og hv. þingmanna Einars K. Guðfinnssonar og Jóns Gunnarssonar, við málið. Sá fyrirvari er almennur og er sá sami og ég lýsti við búfjárhaldslögin fyrr í kvöld og varðar það að þessi vinna er umfangsmikil enda málaflokkurinn víðfeðmur. Hér er um nýjung að ræða, mál sem er búið að vinna lengi í kerfinu í samstarfi ýmissa aðila og ráðuneytis og ég held að megi segja að hafi verið góð vinna. Nokkrar grundvallarbreytingar voru gerðar og auðvitað eru nokkur álitamál í þessu, en sá fyrirvari sem við gerum er almennur þess efnis að málið var langt komið í desembermánuði en í janúar og febrúar og fram í mars valdi meiri hlutinn í atvinnuveganefnd að taka til umfjöllunar mál er ekki munu klárast á þessu þingi og ljóst var að mundu ekki klárast. Fyrir vikið var þetta mál látið bíða en hér eru gerðar umtalsverðar breytingar á þvingunarúrræðum og refsiákvæðum, auk þess sem þau álitaefni sem ég ætla ekki að koma inn á tímans vegna þurftu auðvitað umfjöllunar við í nefndinni.

Ég tel að niðurstaðan sé ásættanleg en vegna þess að við höfðum ekki tækifæri til að leita umsagna að nýju þrátt fyrir fjölda breytingartillagna, sérstaklega breytinga á þvingunarúrræðunum og refsiákvæðunum, setjum við þennan fyrirvara.

Ég vil þó segja að vinnan í nefndinni hefur verið góð og atvinnuveganefnd hefur frábæran nefndarritara til aðstoðar sem vann þrekvirki á síðustu dögum áður en málið var tekið út. Í trausti þess að það haldi sem þar var gert samþykktum við að vera á þessu nefndaráliti og á málinu og leggjum til að það verði samþykkt, en vísum til þess að það væri betra þegar um er að ræða svo umfangsmikil mál að þau fái þann tíma í nefndunum sem þau þurfa til að verða fullþroskuð svo menn geti lagt þau fram með góðri samvisku.