141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[23:32]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar vegna frumvarps til laga um gjaldeyrishöft sem mælt var fyrir af hæstv. fjármálaráðherra fyrr í þessum mánuði. Frumvarpið lýtur einkanlega að þremur þáttum. Þar er í fyrsta lagi verið að uppfylla fyrirheit sem gefin voru við samninga um þinglok fyrir nokkru um að gera ráðstafanir til að létta á fjármagnshöftunum gagnvart venjulegu fólki og fyrirtækjum. Það er hér gert með því að hækka framfærsluviðmið, auka heimildir aðila í atvinnurekstri til gjaldeyrisviðskipta, auka heimildir til erlendrar lántöku og fleiri slíkra þátta.

Í öðru lagi er verið að hækka umtalsvert heimildir Seðlabankans til að leggja á stjórnvaldssektir. Það þýðir ekki að sektirnar séu að hækka heldur er aukið svigrúmið sem bankinn hefur til þess að ákvarða sektir inn í, hvað einstaklinga varðar úr 20 milljónum í 65 milljónir og gagnvart fyrirtækjum úr 75 milljónum í 250 milljónir en það er þá ramminn fyrir þær sektir sem bankinn getur lagt á.

Hér verður að hafa í huga að veruleg ágóðavon getur verið af því að brjóta gegn lögum um gjaldeyrishöft. Það er mikil þjóðarnauðsyn að þau lög haldi og að höftin leki ekki því að ef þau leka munum við aldrei losna við þau. Þess vegna er mikilvægt að bankinn hafi fullnægjandi heimildir til að láta menn sæta tilfinnanlegum sektum ef þeir brjóta í ágóðaskyni gegn þeim undanþágum sem þeim hafa verið veittar eða á annan hátt gegn lögum um gjaldeyrishöft.

Þá er í frumvarpinu í þriðja lagi verið að auka umtalsvert eftirlitsheimildir Seðlabankans með lögum af sömu ástæðum og verið er að auka heimildir bankans til að leggja á sektir. Þetta atriði var kannski það sem helst var umdeilt í meðförum málsins og sætti nokkurri gagnrýni, en hafa verður í huga að Fjármálaeftirlitið hefur sams konar heimildir til eftirlits og verið var að búa Seðlabankanum. Athygli var hins vegar vakin á því í umfjöllun fyrir nefndinni að eftirlit Fjármálaeftirlitsins nær aðeins til afmarkaðs hóps lögaðila, starfsleyfisskyldra aðila í tilteknum greinum atvinnulífsins en ekki til allra fyrirtækja og allra einstaklinga á Íslandi eins og hér um ræðir hvað varðar Seðlabankann og eftirlit með lögunum um gjaldeyrishöft. Sömuleiðis að ekki væri um að ræða sérstaka afmörkun á því til hvers eftirlitið næði, þess vegna væru heimildirnar samkvæmt frumvarpinu óhæfilega víðtækar og gengju gegn góðri venju um friðhelgi einkalífs og sjónarmiðum um persónuvernd.

Nefndin tók tillit til þessara sjónarmiða og afmarkar það svið sem eftirlitsheimildirnar ná til. Samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar ná þær annars vegar til gjaldeyrisviðskipta og hins vegar fjármagnshreyfinga eðli málsins samkvæmt því að hér er verið að hafa eftirlit með lögum um gjaldeyrishöft. Þess vegna ná eftirlitsheimildirnar til þátta er varða þau, þ.e. gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar, en ekki til annarra óskyldra hluta. Til þess að taka af öll tvímæli var talið rétt af nefndinni að árétta þetta með breytingu á lögunum sem hér kemur þá til atkvæða við atkvæðagreiðslu nú eftir 2. umr. málsins.

Nefndin stendur einhuga að baki áliti þessu með svipuðum hætti og nefndin stóð einhuga að því að flytja sjálf frumvarp til breytinga á lögum um gjaldeyrishöft nýverið. Það er full ástæða fyrir þeirri góðu þverpólitísku samstöðu sem hefur tekist í þessum mikilvægu hagsmunamálum íslensks þjóðarbús og íslensks almennings. Það er eitthvert brýnasta verkefni okkar í þinginu að brjótast út úr þessum höftum og skapa bæði venjulegu fólki og fyrirtækjum í landinu eðlileg almenn skilyrði í efnahagslífinu til frjálsrar verslunar og viðskipta.