141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[10:38]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp felst í því að samræma refsihámark í kynferðisbrotamálum gegn börnum og ungmennum og var samið að tillögu hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem vakti athygli á því á síðasta ári að refsihámark brota gegn börnum yngri en 15 ára er í gildandi lögum lægra þegar um er að ræða brot gegn eigin barni eða barni sem viðkomandi er í trúnaðar- eða fjölskyldusambandi við en þegar um er að ræða brot gegn ótengdum börnum. Þetta eru augljóslega fráleit skilaboð frá löggjafanum og þótt dómarar hafi beitt öðrum ákvæðum til refsiþyngingar í slíkum málum hefur verið hrópandi misræmi milli löggjafarinnar og dómaframkvæmdar í þessum efnum.

Þetta er táknrænt en mikilvægt skref og ég vil sömuleiðis geta þess að undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar vinnur nú að því að leggja lokahönd á tillögur og ábendingar sem kynntar verða á allra næstu dögum um hvernig megi bæta málsmeðferð og meðhöndlun kynferðisbrotamála gegn börnum í samfélaginu.