141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013--2016.

582. mál
[10:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum til atkvæðagreiðslu við síðari umræðu um þingsályktunartillögu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016. Er um að ræða aðra þingsályktunartillöguna á þessu sviði en hin fyrsta var samþykkt fyrir tveimur árum á grundvelli laga frá árinu 2008.

Markmiðið með alþjóðlegri þróunarsamvinnu, eins og það er skilgreint í þessari tillögu, er að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims, baráttunni gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífskjara og hungri í heiminum.

Ég álít að þrátt fyrir efnahagshremmingar sem við Íslendingar höfum lent í getum við verið stolt af starfi okkar í þróunarsamvinnu, bæði tvíhliða og marghliða. Ég fagna því að það er almennt góð, breið og pólitísk samstaða í þessum málaflokki. Enda þótt fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undirriti nefndarálit hér að lútandi með fyrirvara held ég að ég geti fullyrt að almennt séð sé góð samstaða um þetta mál. Ég vænti þess að það verði samþykkt sem og þær breytingartillögur sem meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til í málinu.