141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[11:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Á þessu skjali sem við greiðum atkvæði um núna, þ.e. breytingartillögu sem er flutt af hv. fjárlaganefnd, eru felldar niður um 222 millj. kr. fjárveitingar sem voru inni á árinu 2011.

Ég vek athygli á því við afgreiðslu þessa máls að verið er að samþykkja um 900 millj. kr. aukaútgjöld úr ríkissjóði vegna markaðra tekna sem segir okkur allt um það hversu mikilvægt það er að breyta því fyrirkomulagi sem mörkuðu tekjurnar eru. Í fjárlögunum eru um 100 milljarðar undir þessum lið, markaðar tekjur, og það skerðir fjárstjórnarvald Alþingis. Þetta er staðfesting á því að í marsmánuði 2013 skuli Alþingi vera að samþykkja 900 millj. kr. fjárveitingar inn á árið 2011.

Ég vil þó segja í þessari atkvæðaskýringu að samstarfið, ekki síst í hv. fjárlaganefnd, við gerð þessa frumvarps var að mínu mati til mikillar fyrirmyndar.