141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

Þjóðminjasafn Íslands.

583. mál
[11:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með þessum breytingum verður rannsóknarhlutverk Þjóðminjasafnsins styrkt og það tilgreint sem háskólastofnun, sérstakar rannsóknarstöður við safnið lögfestar og akademískir starfsmenn þess tengdir með beinum hætti við rannsóknir og kennslu Háskóla Íslands.

Við umfjöllun nefndarinnar vöknuðu að sjálfsögðu spurningar um þýðingu þess að Þjóðminjasafnið verði skilgreint sem háskólastofnun og í minnisblaði sem menntamálaráðuneytið tók saman kemur fram að hugtakið háskólastofnun sé lögverndað heiti fyrir sjálfstæða menntastofnun en með þessu sé fyrst og fremst verið að tryggja það að Þjóðminjasafn Íslands fái sambærilega stöðu gagnvart Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þ.e. að sú rannsóknarstarfsemi sem stunduð er hjá Þjóðminjasafninu nýtist beint í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra viðurkennda háskóla til eflingar á þekkingu innan fræðasamfélagsins.

Um þessar breytingar náðist góð samstaða í nefndinni og undir nefndarálitið rita fulltrúar allra flokka sem voru viðstaddir úttekt málsins.