141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[11:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta um gjaldeyrismál lýtur í fyrsta lagi að því að létta höft fyrir venjulegt fólk og fyrirtæki, að færa Seðlabankanum auknar heimildir til að sekta þá sem reyna að brjóta gegn lögunum og auka eftirlitsheimildir bankans.

Meginbreytingin sem nefndin gerir á málinu er að afmarka betur þær upplýsingaheimildir sem Seðlabankinn fær, takmarka þær við gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar þannig að ekki sé gengið óhæfilega á friðhelgi einkalífs manna.

Það hefur verið sómi fyrir Alþingi hversu góð samstaða hefur verið um að halda af einurð á hagsmunum fólks og fyrirtækja í landinu í þverpólitískri samstöðu í þeim málum sem lotið hafa að gjaldeyrishöftunum. Ég þakka fyrir þá fullu og góðu samstöðu sem hefur verið um málið í nefndinni og vonast til þess að hún verði líka í salnum og að málið verði fljótt og vel gert að lögum.