141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[11:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir ummæli formanns nefndarinnar, hv. þm. Helga Hjörvars. Það var mjög góð samstaða í nefndinni og menn ræddu mjög opinskátt um þau vandamál sem til dæmis upplýsingagjöfin eins og hún lá fyrir í frumvarpinu hefði getað veitt. Það var nánast þannig að Seðlabankinn gat vaðið í heilbrigðisskýrslur og annað slíkt, svo opið var það.

Í 13. gr. hefur nefndin takmarkað þetta við gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar. Það er mjög gott og ég stend að því. Hins vegar geta menn enn haft um það efasemdir hvort ekki sé allt of víðtæk upplýsingaskylda vegna þess að það skiptir ekki máli þegar Seðlabankinn leitar eftir upplýsingum hvort sá aðili sem á að veita þær tengist málinu eitthvað eða ekki. Hann getur átt að veita upplýsingar um þriðja aðila sem tengjast honum lítið sem ekki neitt.

Ég greiði atkvæði með þessu.