141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[11:32]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að þakka fyrir þá góðu samstöðu sem ríkti í efnahags- og viðskiptanefnd um þetta mál. Ég vek hins vegar athygli á því að þetta er ekki fyrsta málið og örugglega ekki það síðasta sem berst inn í þingið þar sem verið er að gera breytingar á neyðarlögunum um gjaldeyrishöftin sem voru samþykkt á sínum tíma.

Það er athyglisvert að fylgjast með því að það hefur verið einhvers konar þema hjá Sjálfstæðisflokknum að kalla eftir afnámi gjaldeyrishafta en lofsyngja á sama tíma krónuna og láta eins og það sé ekkert samhengi á milli þess að við erum með gjaldmiðil sem virkar ekki og nýtur einskis trausts á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hins að við erum með gjaldeyrishöft.

Það er til þægileg og góð leið og varanleg lausn á þessu vandamáli. Hún er sú að samþykkja aðild að Evrópusambandinu og taka upp evruna, traustan gjaldmiðil í alþjóðlegu samhengi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það mundi líka lina þær þjáningar þingheims og annarra í samfélaginu að þurfa að fylgjast með tilburðum Framsóknarflokksins til að reyna að komast (Forseti hringir.) undan þeirri kvöl að þurfa að útfæra hið geðþekka kosningaloforð sitt um afnám verðtryggingarinnar. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Kjósendur …) (Gripið fram í: Vel mælt.)