141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Varðandi fyrri hluta andsvars hv. þingmanns held ég að við séum sammála, enda liggur ekki langt á milli Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar almennt og þess vegna hef ég verið svo undrandi á afstöðu einstakra þingmanna Samfylkingarinnar gagnvart auðlindaákvæðinu frá auðlindanefndinni árið 2000.

Í því samhengi þarf að skilgreina allar þær auðlindir sem eru í eigu þjóðarinnar sem þjóðareign í stjórnarskrá, um það erum við sammála. Það er langt seilst þegar á síðustu endametrum þessa kjörtímabils á að fara að kippa eignarrétti af jarðhitaholum einstakra bænda, skulum við segja, og segja þeim að þær séu þjóðareign. Bora 50 metra niður, þeir hafa tekið áhættuna sjálfir og nýta í litlu hverfi, fjórum, fimm bæjum saman og svo á að segja þeim að þeir megi ekki nýta jarðvarma, einhverjar volgrur sem ganga upp úr landinu af því það er orðið þjóðareign og þeir eigi að fara að greiða auðlindarentu.

Aftur á móti er rétt að segja að í Danmörku er hagkerfi sem ég held að við viljum vera sambærileg við. Þar eru 2/3 vatnsveitna í eigu einkaaðila en hins vegar setja menn reglur af því það má takmarka eignarrétt, hinn beina, það má þó gera minna, og mjög mikið hinn óbeina. Vatn er auðvitað vatn í sjálfu sér, rigningarvatn. Það dettur engum í hug, nema einhverjum frjálshyggjumönnum, að hægt sé að einkavæða það. Við hv. þingmenn erum klárlega á móti því en það er hægt að setja reglur um hvernig og hvaða tekjur má hafa af því. Það er hægt að „regúlera“ þær tekjur og það gera menn í Danmörku. Það er meira að segja hægt að setja inn auðlindarentu þar sem vatn almennt er auðlind þjóðar, en þar sem menn eru komnir í nýtinguna getur verið skammt á milli. Ef við höfum verið með eignarrétt á slíkum hluta í 1100 ár og teljum það eðlilegt er málið flókið. Ég tek undir það með hv. þingmanni, það er flókið og skiptir gríðarlegu máli hvernig orðalag er á slíku ákvæði, hvort við séum með einhverri setningu að svipta menn þeim eignarrétti, breyta honum í óbeinan, með tilheyrandi (Forseti hringir.) afleiðingum. Ég held að þarna sé umræða sem við verðum að taka, en ég er ekki viss um að við finnum bestu leiðina út úr því í gegnum ræðustólinn.