141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir andsvar hennar.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þau rök sem notuð hafa verið í þessari umræðu eru svolítið áhyggjuefni, þ.e. að skýrsla þingmannanefndarinnar sé notuð sem rök fyrir því að hér þurfi að skrifa nýja stjórnarskrá. Þeir sem halda því fram virðast ekki hafa lesið þá skýrslu eða vitað hvað þeir greiddu atkvæði um, því að þar kemur alveg glöggt í ljós að talað er um að endurskoða ákveðna kafla en ekki að skrifa nýja stjórnarskrá.

Varðandi seinni spurninguna vil ég benda hv. þingmanni á að við búum í lýðræðisríki. Hér fóru fram alþingiskosningar 2009 þar sem Samfylkingin og Vinstri grænir fengu það fylgi sem gerði þeim mögulegt að mynda ríkisstjórn. Þingkosningar eru ekki á ábyrgð Framsóknarflokksins.