141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var venju fremur stóryrtur hér áðan þegar hann lýsti því lýðræðislega og um margt einstaka endurskoðunarferli sem verið hefur á stjórnarskránni frá þjóðfundi fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október í fyrra sem áhlaupi á stjórnskipan landsins. Það var með ólíkindum að hlusta á það, sérstaklega í því ljósi að stjórnarskrárendurskoðunin og allt það ferli var eitt helsta flaggskip Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar og var skilyrði fyrir stuðningi flokksins við minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fyrir fjórum árum síðan.

Þess vegna vildi ég spyrja hv. þingmann: Hvar bar Framsóknarflokkinn af leið? Hvenær varð flokkurinn viðskila við það endurskoðunarferli sem hann keyrði sjálfur af stað af miklum þunga fyrir fjórum árum síðan, m.a. með frægum sjónvarpsauglýsingum og áróðri í aðdraganda kosninga? Það var eina skilyrði flokksins fyrir stuðningi við minnihlutastjórn jafnaðarflokkanna fyrir fjórum árum síðan. Þess vegna skil ég ekki alveg þessa nálgun þingmannsins um áhlaup á stjórnskipan, af því að það áhlaup er runnið undan rifjum Framsóknarflokksins og einskis annars. Það á ekki að kalla þetta glæsilega og vel heppnaða ferli áhlaup af því að ferlið hefur gengið mjög vel. Vandvirknislega hefur verið unnið að því og hafa þúsundir Íslendinga komið að því.

Ringulreiðin sem þingmaðurinn lýsir hér í þingsal er ekki til staðar nema í þönkum hv. þingmannsins af því að það fer fram yfirveguð og ágæt umræða um þessi mál.

Spurningin er þessi: Af hverju má auðlindaákvæðið, sem er best unnið, hefur lengst verið unnið að og mestur stuðningur er við í þjóðaratkvæðagreiðslunni, ekki ganga til atkvæða í þinginu þannig að meiri hlutinn skeri einfaldlega úr um hvort lagt verði til að því verði bætt við stjórnarskrána eða ekki? Af hverju þarf minni hlutinn að beita því málþófsofbeldi sem hv. þingmaður boðar hér?