141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir fyrirspurn hans hér. Ég þakka sérstaklega fyrir hana vegna þess að þá tekst mér loks að leiðrétta ýmsan misskilning sem samfylkingarmenn og bloggheimar hafa haldið fram mjög lengi. Skilyrði Framsóknarflokksins fyrir því að styðja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var í fyrsta lagi að koma heimilunum til bjargar og í öðru lagi að hér yrði farið í atvinnuuppbyggingu. Að sjálfsögðu voru þessi loforð svikin eins og öll önnur loforð sem ríkisstjórnin hefur gert á starfsferli sínum, þau hafa jafnvel svikið undirritaða samninga.

Það var líka krafa Framsóknarflokksins að hér yrði boðað til stjórnlagaþings. Það myndaðist einhver stemning í samfélaginu á þessum tíma, en ég vil benda þingmanninum á að Framsóknarflokkurinn hefur haldið tvö flokksþing síðan og þetta var ekki að finna í ályktunum 2011 og ekki á nýafstöðnu flokksþingi árið 2013.

Þá kem ég að aðalatriðinu: Hvenær sannfærðust framsóknarmenn um að málið væri komið af leið? Það fór ég yfir í ræðu minni, það var þegar Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosninguna. Þá var málið búið. Síðan þá er málið búið að vera í skötulíki og miklum vafa undirorpið, vegna þess að ríkisstjórn sem ekki fer eftir æðsta dómstól landsins á að fara frá, virðulegi forseti. Það gerði útslagið, þ.e. þegar Hæstiréttur úrskurðaði stjórnlagaþingskosninguna ógilda.

Hv. þingmaður heldur því líka fram að auðlindaákvæði það sem vinstri flokkarnir hafa komið með í umræðuna sé það besta sem fyrirfinnst hér á landi. Ég hafna því, ég vísa því á bug. Það auðlindaákvæði sem fór í skoðanakönnunina 20. október síðastliðinn (Forseti hringir.) var engan veginn í samræmi við nýjasta útspil ríkisstjórnarflokkanna. Ætli þeir séu ekki búnir að setja fram fimm auðlindaákvæði í umræðunni núna, virðulegi forseti?